Fréttir

26 jún. 2004

Stærsti lax sumarsins ?

Þeir voru glaðbeittir þeir veiðifélagar og bræður, Jakob Valdimar og Ingvar Karl, er þeir mættu í Veiðilindina á Akureyri til að vigta, mæla og skrá grálúsugan hæng er þeir veiddu í Fnjóská í morgun. Laxinn tók á veiðistað númer 6, Hellunni, og enduðu þeir á því að landa laxinum niður við brú, eftir harða orrustu í miklum straumþunga og landslagi erfiðu yfirferðar. Laxinn reyndist vera 98 cm á lengd og vóg 10,5 kg eða 21 pund.

Jakob Valdimar Þorsteinsson með 21 punda laxinn sem hann fékk á Hellunni

Annan vel vænan lax misstu þeir eftir snarpa viðureign, sá tók á sama veiðistað en losaði sig við veiðimennina í miklum látum töluvert neðar. Sást til fleiri laxa á svæðinu bæði í morgun og í gær, og var mikil hreyfing á þeim, enda mjög gott vatn í ánni og allar líkur á að fiskur sé farinn að ganga laxastigann upp á efri svæðin. Veiðimenn sem voru við veiðar föstudagskvöldið sáu einnig til laxa á Hellunni, og fleiri létu sjá sig er þeir eltu hjá þeim í Rauðhyl.

Bleikjuveiði hefur verið með ágætu móti og er Rauðhylur að gefa mestu veiði þessa dagana. Veiðimenn hafa verið að fá þar bæði staðbundna bleikju í góðum holdum, flestar í kringum 2 pundin og einnig hefur sjóbleikjan verið að láta sjá sig síðustu daga. Í vikunni fékk veiðimaður tvær nýgengnar 3 og 5 punda sjóbleikjur. Í morgun voru tvær nýgengnar bleikjur dregnar á land og ein lak af sem var áætluð um 4 pund.

Veiðimaður sem skrapp dagpart á 2. svæði síðastliðið fimmtudagskvöld fékk þar tvær bleikjur og 3 urriða, allt 1,5 - 3 pund

Til baka

Veiðileyfi

Fnjóská
Ekkert laust eins og er.

Fnjóská - Svæði 5
Ekkert laust eins og er.