Fréttasafn

07 nóv. 2003

Þakkir
Sumarið 2003 voru yfir 5000 heimsóknir á heimasíðu Flúða, sem opnuð var í mars sama ár.
Við þökkum hér með fyrir góðar undirtektir og sýndan áhuga á Fnjóská og málefnum félagsins.

Nýtt og enn betra sölukerfi
Við höfum nú lokið við endurbætur á sölukerfinu okkar og skráð inn lausa daga þannig að þér er ekkert að vanbúnaði að tryggja þér daga í Fnjóská sumarið 2004.

Veiðin 2003
170 laxar komu á land sumarið 2003 og var það undir væntingum, en nokkurn veginn í samræmi við veiði úr öðrum ám á svæðinu. Á sjöunda hundrað bleikjur voru skráðar í veiðibækur en að okkar mati var veiðin töluvert meiri eða á bilinu 800 - 1000.


01 sep. 2003

Árlegur barnadagur var í Fnjóská 31. ágúst, en þá buðu Flúðamenn og Fnjóskárbændur afkvæmum sínum til veiða í ánni undir styrkri leiðsögn.  Margir silungar veiddust á barnadeginum víða í ánni og ung stúlka fékk Maríulaxinn sinn, 10 punda hæng.  Í hléinu var grillað í frábæru veðri ofan í svanga veiðimenn framtíðarinnar og leiðsögumenn þeirra.
Einungis 150 laxar hafa veiðst til þessa og smálaxinn hefur enn ekki skilað sér í því magni sem vænst var.  Vel hefur hins vegar veiðst af bleikju og nú eru yfir 500 komnar á land.  Töluvert hefur komið af bleikju á 1. svæði undanfarna daga og hafa einstaka veiðimenn verið að að fá yfir 10 fiska á deginum og allt upp í 28 stykki.  Þetta er í bland nýgengin bleika, 1,5 - 2 pund, og einnig hefðbundin haustbleikja, þ.e. 0,5 - 1 punds fiskar. 
Þar sem smálaxinn vantar að mestu, höfum við ákveðið að bjóða veiðileyfi á 1. svæði í september til sölu á lækkuðu verði eða á 6.000 kr. daginn, og fá menn þá 1/2 dag ofan gömlu brúar og 1/2 dag neðan hennar. Eingöngu er hægt að kaupa þessi veiðileyf á 1. svæði í Veiðilindinni, sími 860 6002.
Einnig höfum við sett í sölu veiðileyfi á 2. og 3. svæði, og eru þau seld hér á netinu.


08 ágú. 2003
Um það bil 90 laxar eru komnir á land úr Fnjóská og hefur verið frekar rólegt yfir veiðinni síðustu daga.  Alltaf er þó að koma einn og einn lax hér og þar á laxasvæðunum (1 - 3), bæði smálax og tveggja ára laxar.  Á silungasvæðunum (4 - 6) er einnig frekar rólegt, þó svo að alltaf sé einhver reytingur.  Góðar bleikjur eru að koma á land og í byrjun ágúst komu hátt í 20 fiskar á eina stöngina.
Óvíst er hvað veldur þessum rólegheitum, gott vatn er í ánni og menn telja að þó nokkur fiskur sé genginn í hana.  "Sérfræðingarnir" segja að hlýindin undanfarnar vikur geti haft einhver áhrif og reikna þeir með betri veiði þegar veður breytist.
Þann 7. ágúst fékk einn veiðimaður 3 laxa á svæði 4 á hálfum degi, og voru þeir 10, 10 og 12 pund.  Þar kostar veiðileyfið 10.000 kr fyrir heilan dag og 6.000 kr fyrir hálfan dag, þannig að varla finnast ódýrari laxar en þessir þrír.  Þann 8. ágúst kom síðan 14 punda lax á 6. svæði og 4 punda lax á 5. svæði.
Búið er að koma klakkistum fyrir á nokkrum stöðum og eru veiðimenn kvattir til að setja góðan hrygningarfisk í kistu og tilkynna það eins fljótt og hægt er.

22 júl. 2003
Um 50 laxar eru komnir á land úr Fnjóská og yfir 200 bleikjur. 
Bretar voru við veiðar 18  og 19. júlí á neðri svæðunum og fengu 20 bleikjur, allar á flugu.  Einnig settu þeir í tvo laxa, sem sluppu báðir.  Bretarnir fóru rólega yfir og höfðu meira gaman af því að kljást við bleikjuna en laxinn. 
Þann 21. júlí kom lúsugur smálax af Hrísgerðisbreiðu (nr. 50) og sama dag kom 16 punda hængur af Þvergarðsbreiðu (nr. 49).  Lúsugir smálaxar hafa verið að veiðast síðustu daga á 1. svæði, og þar hafa menn stöðugt séð göngulaxa kasta mæðinni á Hellunni áður en þeir héldu áfram för.  Nú fer besti tími árinnar í hönd og gera má ráð fyrir að veiði fari verulega að aukast á efri svæðunum.

09 júl. 2003

Um það bil 30 laxar eru nú komnir á land í Fnjóská.  Eftir góða byrjun dróg heldur úr veiði í nokkra daga þó svo að víða á 1. svæði sjáist lax ganga, bæði hinn hefðbundni tveggja ára fiskur og einnig smálax.  Seinustu daga hefur veiði aukist aftur og menn víða orðið varir við lax.  Fyrstu laxarnir eru komnir á land af svæðum 2 og 3 en nokkrir hafa hlaupið á snæri veiðimanna og sloppið.  Búið er að skrá um það bil 150 bleikjur og hafa þær veiðst á öllum svæðum.  Nokkrar 3-4 punda sjóbleikjur hafa veiðst og ein 6 punda bleikja er komin af 3. svæði.  Svo virðist sem bæði lax og bleikja sé fyrr á ferðinni á upp efri svæðin en oft áður og gæti hóflegt vatnsmagn árinnar miðað við árstíma verið skýring þar á.


22 jún. 2003
Það er ekki hægt að segja að mönnum hafi leiðst mikið þegar veiðar hófust í Fnjóská að morgni 19. júní.  Veitt var á tvær stangir og þegar upp var staðið um kvöldið voru komnir 5 laxar á land.  Þar á meðal var einn 16 punda á Svarta Frances úr Kolbeinspolli og einn 10 punda á Snældu af Skúlaskeiði.

16 jún. 2003
Stjórnin opnaði ána sunnudaginn 15. júní.  Tveir laxar komu á land, 13 punda hrygna úr Kolbeinspolli og 12 punda hrygna af  Hellunni.  Á báðum þessum stöðum sást til fleiri laxa og einnig varð vart við lax á Malareyri og Bjarghorni.  Minna vatn er í ánni en oftast er á þessum árstíma og ekki er að sjá lit á vatninu.  Almenn veiði hefst 19. júní.

09 jún. 2003

9. júní sást lax á Bjarghorni (veiðistað nr. 4) og var það 5-6 kg fiskur sem stoppaði þar stutt áður en hann hélt áfram för.  Áin var frekar vatnsmikil svo sem venja er á þessum árstíma og örlítið lituð þannig að ekki var gott að skygna aðra hefðbundna vorstaði svo sem Helluna (nr. 6), Malareyri (nr. 10) og Kolbeinspoll (nr. 8)
Veiði hefst í Fnjóská þann 19. júní.


14 mar. 2003

Heimasíða Flúða er orðin að veruleika og má þar finna ýmsar upplýsingar um félagið og veiðisvæði Fnjóskár, ásamt lausum leyfum í ána á laxa- og silungasvæðin. Hægt er að panta leyfi beint af vefnum og ganga frá greiðslu með millifærslu. Góða skemmtun

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.