Fréttasafn

10 ágú. 2004

Systurnar Eir (7 ára) og Iðunn (5 ára) Andradætur veiddu báðar Maríulaxa á síðast liðnu sumri, nánar tiltekið þann 8. ágúst. Eir veiddi 5 punda lax á Eyrarbreiðu á Rauða Frances með keiluhaus og Iðunn veiddi 5 punda lax á Rauða Frances þríkrækju við Engjabakka. Báðar notuðu kaststöng og flotholt. Í Fnjóská þarf sums staðar að kasta langt þannig að Eir sat á háhesti á pabba þegar hún setti í fiskinn og þreytti hann. Hún landaði sínum fiski alveg sjálf, dró hann upp í fjöru, bremsan á kasthjólinu var óvart í botni og fiskurinn var greinilega feigur. Pabbi hjálpaði Iðunni svolítið við að draga inn sinn lax enda aðstæður við Engjabakka erfiðar, mikill straumur og stórgrýti.

Mynd: Iðunn og Eir Andaradætur með laxana


04 ágú. 2004
Mjög góð veiði hefur verið undanfarna daga á öllum laxasvæðum í Fnjóská og mikið sést af laxi. Mest er þetta góður smálax sem veiðist, en einn og einn tveggja ára fiskur slæðist með. Veiðin er nú komin yfir 170 laxa.

20 júl. 2004

Um það bil 50 laxa eru komnir á land og bleikjuveiði er mjög góð. Smálax er að ganga og sést hann í tugatali á 1. svæði, en virðist stoppa þar stutt við, enda mjög góð skilyrði til að fara laxastigann upp á efri svæðin. Svæði 2 - 4 eru komin ágætlega í gang og hafa m.a. fengist laxar ofarlega á 4. svæði.
Einn 10 punda lax veiddist í Bakkaá fyrir nokkrum dögum, sem verður að teljast mikil frétt, en Bakkaá sameinast Fnjóská við bæinn Reyki ofan við svæði 6, sem er efsta svæði okkar í ánni. Þessi lax hefur sem sagt ferðast upp í gegn um öll laxa- og silungasvæðin og yfir í Bakkaá þar sem hann hljóp á færi bleikjuveiðimanns sem væntanlega hefur ekki átt von á slíkum feng.

23. júlí var búið að skrá tæplega 80 laxa í veiðibækur og góð veiði á öllum svæðum síðustu daga.


12 júl. 2004
Á þriðja tug laxa eru komnir á land og bleikjuveiði er mjög góð. Smálax er að ganga og virðist stoppa stutt á 1. svæðinu, enda mjög góð skilyrði til að fara laxastigann upp á efri svæðin.
Fyrstu laxarnir af efri svæðunum komu um helgina, þrír laxar á svæði 2 og einn lax á svæði 3. Góður lax slapp í löndun frá veiðimanni á svæði 3 fyrir helgina.
Veiðimenn sem voru með eina stöng á 1. svæði í morgun fengu tvo laxa, 6 og 7 pund, einn 5 punda urriða og þrettán bleikjur, þar af nokkrar 4-5 punda.

03 júl. 2004
Veiðimenn sem voru á 1. svæði í morgun fengu fjóra laxa og nokkrar vænar sjóbleikjur. Laxarnir voru fallegir nýgengnir 5-8 punda fiskar. Töluvert sást bæði af lax og bleikju og svo virðist sem góð ganga sé komin í ána.
Gott vatn er í ánni og greinilegt að fiskur er farinn að ganga laxastigann upp á efri svæðin.

26 jún. 2004

Þeir voru glaðbeittir þeir veiðifélagar og bræður, Jakob Valdimar og Ingvar Karl, er þeir mættu í Veiðilindina á Akureyri til að vigta, mæla og skrá grálúsugan hæng er þeir veiddu í Fnjóská í morgun. Laxinn tók á veiðistað númer 6, Hellunni, og enduðu þeir á því að landa laxinum niður við brú, eftir harða orrustu í miklum straumþunga og landslagi erfiðu yfirferðar. Laxinn reyndist vera 98 cm á lengd og vóg 10,5 kg eða 21 pund.

Jakob Valdimar Þorsteinsson með 21 punda laxinn sem hann fékk á Hellunni

Annan vel vænan lax misstu þeir eftir snarpa viðureign, sá tók á sama veiðistað en losaði sig við veiðimennina í miklum látum töluvert neðar. Sást til fleiri laxa á svæðinu bæði í morgun og í gær, og var mikil hreyfing á þeim, enda mjög gott vatn í ánni og allar líkur á að fiskur sé farinn að ganga laxastigann upp á efri svæðin. Veiðimenn sem voru við veiðar föstudagskvöldið sáu einnig til laxa á Hellunni, og fleiri létu sjá sig er þeir eltu hjá þeim í Rauðhyl.

Bleikjuveiði hefur verið með ágætu móti og er Rauðhylur að gefa mestu veiði þessa dagana. Veiðimenn hafa verið að fá þar bæði staðbundna bleikju í góðum holdum, flestar í kringum 2 pundin og einnig hefur sjóbleikjan verið að láta sjá sig síðustu daga. Í vikunni fékk veiðimaður tvær nýgengnar 3 og 5 punda sjóbleikjur. Í morgun voru tvær nýgengnar bleikjur dregnar á land og ein lak af sem var áætluð um 4 pund.

Veiðimaður sem skrapp dagpart á 2. svæði síðastliðið fimmtudagskvöld fékk þar tvær bleikjur og 3 urriða, allt 1,5 - 3 pund


21 jún. 2004

Stjórn Flúða opnaði Fnjóská þann 16. júní.
Frekar leyst laxinum illa á stjórnarmennina því hann lét ekki sjá sig þann daginn.
Fyrstu veiðimennirnir mættu síðan í ána síðdegis 18. júní. Ekki settu þeir í hann, en lax sást þó á Hellunni, og í Rauðhyl urðu menn einnig varir við lax. Nokkrar bleikjur komu hins vegar á land, allar úr Rauðhyl.
Dagana þar á eftir voru menn að sjá einn og einn lax en ekki hlupu þeir á agnið.

Fyrsti laxinn veiddist loks þann 22. júní, 10 punda lúsug hrygna á Malareyrinni.


Þann 12. júní voru niðurgönguseiði flutt úr eldistjörninni ofan við Sandinn í þrjár nýjar sleppitjarnir sem búið var að útbúa á völdum stöðum, en ein sleppitjörn er í landi Steinkirkju efst á 4. svæði, ein er á 3. svæði neðan við Vatnsleysuhyl og ein er við Skarð efst á 1. svæði. Í hverja sleppitjörn voru sett 3-4.000 niðurgönguseiði, en 8-10.000 seiði eru eftir í eldistjörninni við Sandinn og mun þau ganga úr henni til sjávar í fyllingu tímans.
Á myndinni hér til hliðar eru Pétur, Guðmundur og Olgeir að ljúka fragangi við Vatnsleysuhyl en myndasmiðinn, Sigmund, vantar að sjálfsögðu á myndina.

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.