Fréttasafn

19 nóv. 2005

Þann 15. nóvember rann frestur út til að skila inn umsóknum um veiðileyfi fyrir komandi sumar. Stjórn Flúða mun nú um helgina og næstu daga fara yfir umsóknir og reyna eftir bestu getu að verða við óskum félagsmanna.

Veiðitilhögun sumarið 2006 verður með sama sniði og síðast liðið sumar. Á svæðum 2,3 og 4 verður eingöngu veitt á flugu frá 5. ágúst en annars er allt agn leyfilegt. Hámarksveiði verður 3 laxar á 1/2 degi en eftir það má halda áfram veiðum á flugu og veiddum laxi sleppt.

Verð á veiðileyfum er óbreytt frá síðasta sumri með þeim undantekningum að verð á vor- og haustdögum hefur verið lækkað.

Um leið og úthlutun verður lokið verða lausir dagar settir í almenna sölu hér á vefnum sem ætti að vera um eða upp úr næstu mánaðarmótum.

Á myndinni hér til hliðar má sjá Hauk Jónsson með fallegan fisk sem hann fékk í hollinu 15.-17. ágúst á rauða Frances í Klifinu. Fiskurinn var 97 cm langur og tæp 9 kg.


30 sep. 2005

Við talningu úr veiðibók kom í ljós að laxveiði sumarsins endar í 456 löxum sem er aðeins hærri tala en sumarið 2004. Þessi tala gæti þó breyst þar sem að öllum líkindum eiga nokkrir eftir að skrá veiði. Tölur frá silungsveiði hafa ekki verið teknar saman ennþá en von á þeim.

Við hjá Flúðum erum að sjálfsögðu ánægðir með útkomuna í sumar og eigum von á enn betri veiði sumarið 2006. Nú í vor fóru um 40.000 gönguseiði til sjávar og sumarið 2004 var einnig 20.000 sumaröldum seiðum sleppt víðs vegar um ána.

Flúðir þakkar öllum þeim sem heimsóttu Fnjóská í sumar og vonum að þið hafið átt góðar stundir. Einnig þökkum við þeim fjölmörgu sem heimsóttu vefsíðuna okkar og notfærðu sér sölukerfið okkar á vefnum.

Við minnum þá veiðimenn, sem einhverra hluta vegna eiga eftir að skrá veiði, á að ganga frá sínum málum og koma veiðitölum til okkar í tölvupósti.


31 ágú. 2005

Fnjóská er nú komin í 420 laxa og er laxinn dreifður um alla á. Veitt er til 18. september og því nokkuð ljóst að áin skilar betri heildarveiði en síðasta sumar og gæti hæglega farið yfir 500 laxa ef einhver ástundun að ráði verður í september - en ennþá er töluvert laust af leyfum.

Veiði hefur verið með góðu móti síðustu daga þrátt fyrir að vatnshitastig hafi verið lágt og aðstæður til veiða vegna veðurs ekki góðar - ausandi rigning oft á tíðum og hvöss norðanátt. Síðasta holl gerði góða hluti og fékk marga laxa á litlar flugur í köldu vatni en áin var um 4-6 gráður yfir daginn. Margir maríulaxar og fyrstu flugulaxar hjá veiðimönnum voru dregnir á land og voru þeir stærstu 13 og 14 punda.

Bestu laxveiðisumur í Fnjóská frá 1969:
1992: 555 laxar
1978: 554 laxar
1980: 511 laxar
2004: 442 laxar

Jakob Valdimar með 21 punda lax sem fékkst síðastliðið sumar á Hellunni


23 ágú. 2005

Nú hafa veiðst um 350 laxar í Fnjóská og er bæði bleikja og laxinn enn að ganga og fiskur vel dreifður um alla á. Í gær veiddist til að mynda grálúsugur 7 punda lax á Litlubreiðu og hafa veiðimenn orðið varir við nýgengna laxa í Kolbeinspolli og Malareyri síðustu daga og séð og fengið laxa á flestum stöðum upp að veiðistað 65 sem er efsti staður á svæði 4. Við minnum á að ennþá eru laus leyfi núna í enda ágúst og í september en Fnjóská er vel þekkt fyrir góða haustveiði og stóra laxa seint á tímabilinu.


12 ágú. 2005

Skráðir hafa verið 257 laxar í veiðibók á hádegi í dag, rúmlega 200 bleikjur og um 50 urriðar. Ágætlega veiðist á öllum svæðum í laxinum en þó hafa komið dagar þar sem laxinn stekkur um allt í kringum veiðimenn en tekur illa eða alls ekki. Bera fór á miklu af smálaxi á Sandi og Ferjupolli fyrir nokkrum dögum og mátti ekki seinna vera enda veiðimenn sumir hverjir farnir að hafa áhyggjur af því hvað hefði orðið um smálaxinn úr sleppingu í fyrravor.
Aðrar fréttir eru þær að að veiðimaður sem var að veiða á 5. svæði í gær datt í lukkupottinn og fékk tvo laxa, 11 og 12 punda og veiðimenn á svæði 4. fyrir nokkrum dögum gleymdu gersamlega laxinum þegar þeir fóru að kasta þurrflugum á bleikju við Fellibrúna, en þar var mikið af bleikju í upptöku og margar hverjar vænar.


29 júl. 2005
Nú hafa 120 laxar veiðst og er sá stærsti hingað til 18 punda en hann veiddist nú í vikunni í Nesbugðu á svæði 4. Ágætt hefur líka verið í sjóbleikjunni og hún farin að veiðast upp eftir allri á, stærsta bleikjan sem er skráð er 6 pund og veiddist hún efst á svæði 4.

19 júl. 2005

Síðustu daga hefur verið ágætis veiði og á öllum laxasvæðum. Einna síst hefur veiðin verið á svæði 2 en því viðbúið að allt fari á fullan gír þar þegar smálaxinn mætir og Sandur og Ferjupollur fyllast af laxi en þeir staðir gáfu sitt hvora 48 laxana í fyrra. Rúmlega 60 laxar og svipað af sjóbleikju hefur verið fært til bókar, ásamt nokkuð af urriða, og að öllum líkindum bætist slatti við á morgun þegar tveggja daga holl hættir veiðum.

Litlar fréttir hafa borist af silungasvæðunum og er það svo sem ekkert til að hafa áhyggjur af, þau fara yfirleitt í gang upp úr 20. júlí og mest er um að menn séu að fikta þar fyrir þann tíma og jafnvel athuga með stöku snemmgenginn lax sem hafi slæðst uppeftir.

Ný veiðikort af veiðisvæðum 1-4 hafa verið í smíðum og er nú hægt að nálgast þau hér á vefnum. Veiðikort af silungasvæðunum, svæðum 5-6, eru einnig í bígerð og ekki langt í að þau verði tilbúin. Vonumst við til þess að veiðimenn eigi auðveldar með að athafna sig við ána með þessu en flestir slóðar og vegir sem hægt er að aka eru merktir inn á kortið. Veiðikortin má nálgast hér vinstra megin eða með því að smella hér

Litlabreiða (47) í fallegu veðri


12 júl. 2005

Um 40 laxar hafa veiðst núna í Fnjóská og í kringum 50 bleikjur ásamt slatta af urriða. Veiðimenn sem voru að veiða um helgina fengu 5 laxa og misstu annað eins ásamt því að fá 18 sjóbleikjur og margar þeirra 3-4 punda. Annar sem við fréttum af fór á 4. svæði og náði 2 löxum. Mest er að veiðast á svæði 1 og er þar mikið af laxi og bleikju á hraðferð í gegn. Á efri svæðunum hefur verið kropp síðustu daga og væntanlega stutt í að þar fari veiði í gang að alvöru. Helstu staðir eru farnir að gefa veiði og um helgina fengust til að mynda laxar á Sandi, Stekkjarhyl og á Flúðum.


05 júl. 2005

Töluvert af fiski er nú að ganga í gegn á svæði 1. og er það mest tveggja ára lax og stór sjóbleikja um 2 - 6 pund. Ein stöng var að veiða í dag á svæði 1. seinnipartinn og setti veiðimaðurinn í fjóra laxa og landaði þremur þeirra. Fengust laxarnir á Hellunni og Kolbeinspolli á bæði flugu og maðk. Nokkuð magn sást af laxi á Hellunni og Kolbeinspolli og einnig sáust laxar í Efra Lækjarviki og stökkva í Rauðhyl. Sá er slapp var ágætlega vænn og var búinn að togast á við veiðimanninn góða stund en þegar hann ætlaði niður flúðirnar niður af Hellunni skilaði flugan sér til baka.

Nú eru 20 laxar skráðir í veiðibókina og allir í stærri kantinum. Næstu daga er stórstreymt og eru allar líkur á því að veiðitölurnar hækki umtalsvert.

Af efri svæðunum er það að frétta að rólegt hefur verið síðustu daga, líklega sökum þess að þeir laxar sem þangað eru komnir hafa komið sér fyrir og hafa sín svæði út af fyrir sig en það breytist væntanlega þegar fiskur fer að bætast við á straumnum.


30 jún. 2005

Í gærkvöld veiddist 8 punda lax á Litlubreiðu sem er á svæði 3. Þar af leiðandi hafa nú öll laxasvæðin gefið laxa en bæði 2. svæði og 4. svæði gáfu laxa um síðustu helgi. Veiðimaður á 3. svæði í gær sá einnig lax bylta sér í Símastreng.

Nú síðasta dag júnímánaðar hafa veiðst 15 laxar í Fnjóská og enginn þeirra undir 4 kg að þyngd. Malareyri og Kolbeinspollur á svæði 1 hafa gefið flesta laxa en veiðin hefur dreifst ágætlega, laxar hafa komið úr Malareyri, Kolbeinspolli, Rauðhyl, Hellunni, Vaðnesbreiðu, Litlubreiðu og Ferjustreng. Sést hefur til þeirra á fleiri stöðum, svo sem Bjarghorni, Símastreng og Skjólbreiðu.

Við vekjum athygli á því að veiðileyfi sem voru til undir 2ja daga hollum um og í kringum helgina hafa verið færð undir staka daga og því hægt að kaupa stakar vaktir á hagstæðu verði nú næstu daga.

Tímaritið Veiðimaðurinn kom út nú í vikunni og þar er að finna veiðistaðalýsingu um laxasvæðin í Fnjóská. Tilvalið fyrir þá sem eru að fara í fyrsta skipti eða ef veiðimenn vilja bæta punktum í safnið.

Ingvar Karl með 8 punda lax af Litlubreiðu í gær. Laxinn tók Rauða Frances keilu.


27 jún. 2005

Veiðimenn sem voru á 1. svæði á laugardag fengu 2 laxa á Malareyri og í Kolbeinspolli. Fengust laxarnir á Rauða og Svarta Frances og voru þeir báðir lúsugir 5 kg fiskar. Einnig misstu þeir 2 til viðbótar í Kolbeinspolli og 1 á Malareyri.

Fyrsti laxinn ofan stiga veiddist í gærdag á Vaðnesbreiðu og var það 15 punda maríulax er Arnar Heimisson fékk á litla Frances flugu. Faðir hans sendi okkur bréf og látum við það fylgja hér með fréttinni:

Ég fór í gær seinnipartinn að veiða í Fnjóskánni eins og veiðileyfið segir til um, ég var með strákinn minn með og þetta var bara gert fyrir hann til þess að leyfa honum að prófa nýju flugustöngina sem hann fékk í fermingargjöf nú í vor.

Ekki hafði ég nú mikla von um veiði þar sem veiðileyfið var ódýrt og ekki mikil von um lax á svæðinu. Við byrjuðum að reyna á veiðistað merktum 23 og vorum þar í rúman hálftíma og ekkert líf var að sjá. Við færðum okkur upp á veiðistað merktum 29 og þar fór strákurinn ofarlega og ég beið bara inn í bíl og lét hann reyna og eftir nokkur köst sé ég að stöngin hans bognar og fer því út til hans og þá var hann kominn með þennan rokvæna lax á. Laxinn tók um kl 17 og honum var landað 17:40, þetta var hrygna um 15 pund og tók hún litla fransesflugu og þetta var maríulaxinn hjá stráknum. (Arnar Heimisson) Þess má geta að við höfum aldrei veitt áður á Laxasvæðum Fnjóskár.
Með kveðju og þökk fyrir frábæran veiðidag
Heimir Gunnarsson

Við þetta má bæta að annar veiðimaður hafði samband og hann fékk lax í morgun í Ferjustreng, nr 54, sem er upp á 4. svæði. Laxinn var 9 pund og setti hann líka í tvo aðra á veiðistað nr. 62. Að auki fékk hann nokkra urriða í góðum holdum.

Mynd 1: Horft upp á Vaðnesbreiðu þar sem laxinn fékkst.
Mynd 2: Arnar með maríulaxinn


24 jún. 2005

Nú í morgun fékkst 8 punda grálúsug hrygna á Hellunni. Þá eru komnir 6 laxar í bókina og allir 4 kg eða stærri. Verður það að teljast alveg ágætt miðað við ástundun og það að í fyrra komu aðeins 3 laxar í júní en það sumar endaði í yfir 440 löxum. Lax sást einnig á Bjarghorni í morgun og svo fréttist af veiðimanni í gær sem fékk og missti um 15 punda lax á Malareyrinni þegar átti að landa honum. Áin var um 8-9 gráður í morgun og hefur ekki verið mikið vatn í henni undanfarið, því er líklegt að fiskur sé farinn að ganga stigann og eru nokkrir veiðimenn að prufa efri svæðin næstu daga.


22 jún. 2005

Fyrirsögn fréttarinnar er sett fram á léttu nótunum en öllu gamni fylgir einhver alvara. Sáralítið hefur verið farið til veiða í Fnjóská fyrstu daga veiðitímabilsins en allir sem hafa farið hafa átt við laxa á einn eða annan hátt og enginn farið heim án þess að sjá laxa okkur vitandi - þó þeir hafi ekki endilega tekið agnið. Þegar þetta er skrifað hefur 3 löxum verið landað og sett í nokkra til viðbótar. Laxar hafa sést í Rauðhyl, Malareyri, Hellunni og Kolbeinspolli. Einnig má telja nokkuð víst að þeir stoppi á Bjarghorni, Skúlaskeiði og jafnvel fleiri stöðum.
Enginn var að veiða í gærdag og ekki heldur í morgun en þeir sem áttu seinnipartinn í dag fengu 8 punda lúsuga hrygnu á Malareyri á Black Sheep keilu. Nokkir laxar sáust til viðbótar.
Ein 4 punda bleikja hefur veiðst og allar líkur á því að stóru sjóbleikjurnar séu að mæta en þær eru ekki síðri en laxinn þegar þær koma beint úr sjó þær snemmgengnu og spikuðu.

22. júní fékk veiðimaður 2 laxa á seinni vaktinni en það var það eina sem selt var þann daginn. 10 punda lax var dreginn á land á Malareyri og 9 punda lax í Rauðhyl. Einnig sáust fleiri á Malareyri og á Hellunni.

Lausar stangir eru undir hnappnum "Laxveiðileyfi" og þar er hægt að velja um staka daga á næstunni og einnig 2 daga pakka sem innihalda öll svæðin.

Sigurður með 8 punda hrygnu sem hann fékk á Black Sheep keilu á Malareyrinni að kveldi 21. júní


19 jún. 2005

Almenn veiði hófst í Fnjóská seinnipartinn í gær og var tíðindalítið fyrri hluta vaktar. Þegar líða fór á kvöldið kom hreyfing á svæðið og sáu veiðimenn laxa í Malareyri, Kolbeinspolli og á Hellunni en treglega gekk að koma þeim á agnið. Laxarnir voru 6-8 punda fiskar og svo nokkrir fullorðnir Fnjóskárfiskar innan um.

Í morgun kom svo fyrsti laxinn á land en það var Hákon Guðmundsson sem fékk 8 punda lax í Kolbeinspolli. Fyrr í morgun misstu veiðimenn á stönginni á móti stóran lax í Rauðhyl, ekki nóg með að hann hafi lekið af einu sinni, heldur tók hann aftur stuttu seinna og fór sína leið eftir nokkra baráttu. Einnig fékkst ein 4 punda bleikja í morgun.

Fiskur hefur verið að ganga inn á svæðið í dag og í gær og nú er að nálgast stórstreymi sem nær hámarki á miðvikudag og fimmtudag. Hægt er að fá nokkrar stangir næstu daga á svæði 1.

Veiðileyfi í Laxá í Aðaldal.
Vegna forfalla eru lausar eftirfarandi stangir í Laxá í Aðaldal fyrir löndum Laxamýrar og Hólmavaðs:
Tvær samliggjandi stangir í tvo daga frá 24. júní – 26. júni. Verð pr. stöng pr. dag er 27.000 og fæði og gisting í veiðiheimilinu kostar auk þess 8.800 kr/dag.
Einnig ein stöng í tvo daga frá 26. júní – 28. júní. Verð pr. stöng pr. dag er 30.000 og fæði og gisting er 8.800 kr/dag.


16 jún. 2005

Stjórn Flúða fór til veiða seinnipartinn í gær 16. júní og urðu menn varir við lax á Malareyri. Sett var í einn þar en ekki náðist að landa honum. Sáust fleiri laxar á Malareyrinni og einnig urðu veiðimenn varir við fisk í Rauðhyl.

Laxinn er mættur í Fnjóská og hefur að öllum líkindum verið að koma sér fyrir á svæðinu neðan við laxastigann síðustu daga. Í gærkvöld voru tveir Flúðafélagar við ána að skyggna helstu staði og sáu tvo laxa spóka sig á Malareyrinni. Þeir voru áætlaðir um það bil 10-12 pund og lágu fast við land á rólegu vatni. Nokkuð hefur verið farið undanfarið til að athuga hvort laxinn sé kominn en áin hefur verið afar vatnsmikil og fremur gruggug - það hefur því borið lítinn árangur til þessa. Nú hefur áin aðeins sjatnað og þó enn sé mikið vatn í henni er hún orðin vel tær og lítur vel út til veiða. Eflaust eru fleiri laxar á svæðinu en erfitt var að skyggna marga veiðistaði sem eru góðir vorveiðistaðir sökum vatnsmagns.

Stjórn Flúða mun seinnipartinn í dag renna fyrir laxinn og á seinnipart laugardags munu veiðimenn hefja almenna veiði í ánni. Við munum birta fréttir af veiði stjórnarmanna þegar þær berast og einnig er veiðimenn mæta til veiða um helgina.


16 jún. 2005

Heildarveiðin sumarið 2004 var 442 laxar skv. skráningu í veiðibækur, og er það 4. besta veiðin í Fnjóská frá því að Stangaveiðifélagið Flúðir hóf veiðar í ánni árið 1969.
1. svæði er skráð fyrir 76 löxum, 2. svæði 133, 3. svæði 138 og 4. svæði er skráð fyrir 93 löxum.
Athygli vekur góð veiði á 4. svæði, sem áður tilheyrði að hluta til silungasvæðum árinnar.
Einnig vekur athygli að einungis 2 laxar eru skráðir á silungasvæðunum, þ.e. 5. og 6. svæði, en það verður því miður vart við að einstaka veiðimenn gleymi að færa aflann til bókar, silung jafnt sem lax.
Við þurfum að laga þetta.

Nokkrar væntingar eru til veiðisumarsins 2005 þar sem mikið kom af smálaxi síðast liðið sumar, sem gæti verið ávísun á þokkalegar göngur af tveggja ára laxi í vor. Auk þess var gott ástand á niðurgönguseiðum í sumar sem leið, bæði þeim sem áin hafði fóstrað og einnig þeim sem við settum í nokkrar sleppitjarnir.

Forsölu til félaga í Flúðum er lokið, smávegis er eftir af lausum dögum og eru þeir til sölu hér á síðunni.

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.