Fréttasafn

26 ágú. 2011
Nú eru 550 laxar komnir í veiðbækurnar.
Því miður sjáum við víða göt í dagsetningarnar og vitum af þónokkrum fiskum sem ekki hafa ratað í bækurnar. Við skoru hér með á þá sem þetta á við um að ganga til verks og skrá, annað hvort í veiðibókina í Ellingsen, eða senda okkur tölvupóst. Okkur ber skylda til að skrá allan afla!
Munið að enn er hætta á hruni úr berginu milli Bjarghorns og Skúlaskeiðs.

16 ágú. 2011
Morguninn 15. ágúst hrundi stórt stykki úr berginu á milli Bjarghorns og Skúlaskeiðs. Mikil rigning var nóttina áður og hefur það eflaust átt sinn þátt í hruninu. Veiðimenn á svæðinu urðu vitni að þessu en tveir þeirra gengu þarna undir ca. 10 mínútum áður en hrundi.
Við biðjum menn að gætu ítrustu varúðar ef þeir fara þarna um , en víða má sjá sprungur í berginu og lausa steina sem þurfa ekki mikla hvatningu til að fara af stað. Sérstaklega er þetta varasamt í rigningu.

06 ágú. 2011

Ágætis veiði hefur verið undanfarið á laxasvæðunum í Fnjóská og rúmlega 350 laxar hafa verið færðir til bókar. Góð ganga af smálaxi kom inn núna á stórstreyminu og dreifði sér vel um ána. Lax veiðist nú á flestum stöðum á öllum svæðum og afar fallegt vatn í ánni.

Lítið er að ganga af bleikju og einn veiðimaður nefndi að þetta væri í fyrsta skipti sem hann hefði ekki einu sinni séð bleikju á svæði 1 þegar hann var þar fyrir stuttu. Sama staða virðist vera í nágrannaánum, þaðan heyrum við af því að engin bleikja sé að ganga.

Við beinum því til veiðimanna sem eru að veiða ofarlega í ánni að taka ekki meira af bleikjum sér til matar en nauðsynlegt er og sleppa stóru hrygningarbleikjunum því þær geta átt eftir að skila miklu magni af seiðum um komandi ár.

Undanfarið hefur verið merkt nokkuð af laxi og bleikjum og sleppt aftur í Fnjóská. Þetta er hluti af rannsókn sem verið er að gera og mjög mikilvægt er að veiðimenn veiti því athygli hvort fiskur sem þeir veiða sé merktur og skrái númer merkis í veiðibók. Einnig, merktur fiskur er mjög verðmætur því hann heldur áfram að vera rannsóknarefni sé honum sleppt aftur, ef menn geta séð af þeim út í ána aftur þá er það vel þegið. Um slöngumerki er að ræða og eru þau grænir sívalningar sem skotið er í bakuggann á fiskinum.

Eitthvað magn af laxi er komið í veiðibókina hér á vefnum en sökum anna hefur ekki meira verið sett inn. Hafi einhver góður og vandvirkur aðili áhuga á því að aðstoða við það má hafa samband við Ingvar Karl í síma 868 5225.

Mynd: Húsbreiðan í skemmtilegum aðstæðum


11 júl. 2011

Fyrsti laxinn ofan stiga veiddist 10. júlí og fékkst á Lygnu sem er veiðistaður númer 66 og einnig sást þar annar til viðbótar.

Mikið vatn er í Fnjóská og hún verið frekar köld undanfarið. Talsvert magn er af laxi á svæði 1. og veiðimenn hafa verið að gera góða veiði á vaktinni, setja í þó nokkra fiska en ekki endilega ná þeim öllum - sumir stórir hafa skilið veiðimenn eftir orðlausa á bakkanum.

Það virðist vera töluvert að ganga inn af fiski þar sem það hafa veiðst grálúsugir fiskar síðustu daga.

Um það bil 70 laxar hafa veiðst núna í Fnjóská og sjóbleikjan að byrja að láta sjá sig.


01 júl. 2011
Kvöldvaktin 29. júní landaði 9 löxum á 1. svæði og morgunvaktin 30. júní fékk 5 laxa. Allt voru þetta fallegir tveggja ára laxar. Kvöldvaktin á 1. svæði 30. júni fékk síðan tvo laxa og eina 5 punda bleikju.
Ekki er vitað til að lax hafi veiðst á efri svæðunum en þar fer venjulega að veiðast fyrstu dagana í júlí og stöku sinnum í lok júní.
Áin er frekar vatnsmikil og örlítill litur á vatninu.

18 jún. 2011

Þrátt fyrir að það sé búið að vera kaldranalegt í Fnjóskadal undanfarið þá er laxinn mættur.

Það voru stjórnarmenn í Flúðum sem hófu veiðitímabilið og var veitt á svæði 1. sem er neðsta svæðið í ánni. Alls komu 4 laxar á land sem voru um 10-11 pund. Fleiri tökur fengust og einn stórlax tapaðist eftir að hafa rétt upp krókana eftir mikil læti. Sagði veiðimaðurinn að fiskurinn sem hann landaði síðar hefði kannski slagað í það að vera hálfdrættingur á við þann er hann missti.

Það er mjög fallegt vatn í ánni þessa dagana þar sem það hefur verið kalt og víst að fiskur gengur auðveldlega upp laxastigann enda sáust tvær boltableikjur í miðjum stiganum. Það er þó ansi hætt við því að vorleysingarnar eigi eftir að koma þegar hlýnar verulega eða rignir mikið.

Eftir hamfarirnar í vetur hafa orðið breytingar á nokkrum stöðum þar sem bæði möl og björg hafa fæst til og er til að mynda rennan í Kolbeinspolli orðin töluvert breytt sem og mikið hefur hrunið ofan í Bjarghornið. Hvort þetta hefur áhrif á veiðina í þessum stöðum á eftir að koma í ljós.

Lítið er eftir af veiðileyfum í Fnjóská í sumar en þó stakar vaktir á efri svæðunum snemma og svo 2ja daga stangir á haustdögum.

Myndir: Sigþór og Guðmundur með fallega laxa úr Fnjóská í opnuninni.


11 maí 2011

Fyrirhugaðri vinnuferð 21 og 22 maí hefur verið frestað til 28 og 29 maí sökum veðurs . Þá verður farið í að dreifa seiðum í sleppitjarnir, áhugasamir látið Gumma vita í 618 6265.

Við ætlum meðal annars að gera tvær nýjar sleppitjarnir og dytta að þeim sem fyrir eru. Einnig er vinna við eldistjörnina sem þarf að sinna.

Við óskum eftir sjálfboðaliðum sem geta og hafa áhuga á því að mæta og leggja sitt af mörkum. Margar hendur vinna létt verk.

Það verður unnið báða dagana og allt framlag er vel þegið, hvort sem það er hluti af degi eða allur tíminn. Farið verður á nokkrum bílum svo það eru engin vandamál með farkosti.

Látið vita með því að hringja í Guðmund í síma 618 6265.

Svo er stefnt að því að dreifa seiðum úr eldistjörninni okkar í sleppitjarnirnar um aðra helgi og þá kemur til með að vanta mannskap líka.

Með von um góð viðbrögð.


27 feb. 2011

Klaus Frimor, Óskar Páll Sveinsson og Hilmar Hansson bjóða upp á flugukastnámskeið dagana 21. og 22. maí fyrir veiðimenn á Eyjafjarðarsvæðinu og nágrenni.

Á laugardeginum er einhendu og tvíhendu námskeið á milli 10 og 16.

Verð: 21.000.-

Á sunnudeginum verður stakt einhendunámskeið á milli 10 og 13 og stakt tvíhendu námskeið á milli 14 og 17.

Verð: 11.000.- per námskeið

Farið verður í tvíhenduköst, yfirhandarköstin, Spey og veltiköst sem og einhenduköst.

Hér er frábært tækifæri að læra frá grunni, eða slípa köstin til hjá reyndum veiðimönnum og einum besta kastara og kennara heims.

Einnig verða stangir og línur til sýnis og prófunar.

Skráning er möguleg á Veiðivörur undir veiðiferðir og líka á jonas@veidivorur.is


31 jan. 2011

Hér eru nokkrar myndir, allar teknar af svæðinu frá laxastiganum ofan við Kolbeinspoll og niður að gömlu brúnni neðan Hríslubreiðu.


Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.