Fréttasafn

16 sep. 2015
Við vorum að setja inn í söluna veiðileyfi á svæði 1. núna 17.- 27. sept fyrir þá sem hafa áhuga á því að athuga með haustbleikju en hún lætur oft sýna sig á þessum tíma og stundum í verulegu magni.

Við viljum vekja athygli á því að þessi veiðileyfi á svæði 1. eru aðeins fyrir svæðið neðan við gömlu brú og niður í ós, ekki er leyfilegt að veiða ofan við gömlu brúna. Kvóti á á bleikju eru 4 á vakt en eftir það má veiða á flugu og sleppa hafi fólk vilja til. Varðandi lax þá gilda almennar reglur í ánni.

07 sep. 2015
Nú eru tæplega 500 laxar komnir á land úr Fnjóská. Undanfarna daga hafa veiðimenn orðið töluvert varir við smálax á 1. svæði, sérstaklega á veiðistöðunum ofan við laxastigann, þ.e Engjabakka og Húsbreiðu. Enn er góð veiði á 2. svæði og hafa menn víða orðið varir við lax á svæðinu. Tökur eru grannar og margir sleppa eftir stutta viðureign. Rólegt er á 3. og 4. svæði.

01 ágú. 2015
Við vorum að setja inn lausar stangir í næstu viku í sölu á öllum veiðisvæðum. Veiðileyfin eru í stökum vöktum og athugið að þeim fylgir ekki veiðihús. Neðsta svæðið eða veiðisvæði 1. er núna blátt af laxi og stóri straumurinn sem ætti að skila smálaxinum af magni í ána er í gangi núna. Efri svæðin eru einnig að byrja að gefa bæði lax og sjóbleikju. Áin er ennþá frekar vatnsmikil og köld en með vaxandi magni af fiski þá ætti veiðin að detta í góðan gír á öllum svæðum næstu daga.

28 júl. 2015
Góð veiði er á 1. svæði, mest smálax en einnig nokkrir stærri. Menn eru að sjá töluvert af smálaxi á svæðinu og hollið sem lauk veiðum á sunnudaginn var með 19 laxa á land og einnig settu þeir í marga aðra. Um helgina sáu menn einhverja tugi laxa í Brúarlagshyl og nokkra í stiganum, en skömmu síðar voru þeir flestir farnir uppúr. Við vitum ekki um neina laxveiði ofan stiga ennþá, en síðustu daga hafa menn verið að setja í laxa og sjá þá í uppánni. Við minnum veiðimenn á að skrá veiði strax að lokinni veiðiferð, enda er það skylda okkar sem leigutakar árinnar að upplýsa okkar viðsemjendur um alla veiði, auk þess sem það er sjálfsögð kurteisi við aðra veiðimenn að upplýsa þá um gang mála hverju sinni. Á www.facebook.com er síða um Fnjóská og er hún öllum opin. Síðan heitir "Stangaveiðifélagið Flúðir og annað áhugafólk um Fnjóská". Við hvetjum félagsmenn og aðra til að skrá sig á síðuna og leggja henni til fréttir og upplýsingar eins og tilefni er til.

19 júl. 2015
Veiðimenn sem voru við ána 16-18. júlí sáu töluvert af laxi á 1.svæði og settu í nokkra, flesta þeirra á flugu. Áin er enn rúmlega 70 rúmmetrar og er því í tvöföldu sumarrennsli en ólituð. Hægt er að fylgjast með rennsli árinnar hér á síðunni, en athugið að vatnshiti, sem gefinn er upp, er rangur vegna bilunar í mæli. Áin er nokkru heitari en þar kemur fram. Laxastiginn er í góðu standi og auðveldur uppgöngu.

22 jún. 2015
Fyrsti laxinn úr Fnjóská kom á land 21. júní. Var þetta 11 punda hrygna sem veiddist í Efra-Lækjarviki á 1. svæði. Í morgun veiddust svo 2 laxar og urðu menn varir við fleiri. Áin er mikil vexti en lítið lituð, ágætis veiðivatn.

04 maí 2015

Stangaveiðifélagið Flúðir er félag áhugafólks um stangaveiði og telur nú 110 félaga. Félagið er stofnað 1956 og hefur leigt stangaveiðiréttindi í Fnjóská undanfarin 46 ár af Veiðifélagi Fnjóskár, sem er félag landeigenda að ánni. Þessi félög hafa um langt árabil átt farsæla samvinnu um nýtingu veiðiréttinda í Fnjóská þar sem lögð er áhersla á verndun og auðgun þessarar auðlindar með sameiginlega hagsmuni að leiðarljósi. Í þessu sambandi hafa félögin unnið ötullega að skipulögðu rannsóknar- og ræktunarverkefni í Fnjóská og hafa þau varið til þess umtalsverðum fjármunum, auk þess sem félagsmenn beggja félaganna hafa unnið mikið starf í sjálfboðavinnu verkefninu til framdráttar.

Á aðalfundi Stangaveiðifélagsins Flúða þann 13. apríl 2015 var eftirfarandi samþykkt:

Aðalfundur Stangaveiðifélagsins Flúða mótmælir harðlega fyrirhuguðu eldi á norskum laxi í Eyjafirði og skorar á stjórnvöld að banna allt sjókvíeldi á laxfiskum við Eyjafjörð.

Aðalfundur Stangaveiðifélagsins Flúða fer fram á að yfirvöld banni með öllu sjókvíeldi á norskum laxi, regnbogasilungi og öðrum ágengum framandi stofnum sem valdið geta skaða á vistkerfinu, spillt náttúrlegum fiskistofnum og ógnað líffræðilegri fjölbreytni.

Erindinu hefur nú verið komið til skila ásamt rökstuðningi til opinberra aðila sem að málinu koma.


14 apr. 2015
Við hjá Flúðum höfum sett upp Facebook grúbbu þar sem áhugafólk um Fnjóská og félagið getur fylgst með því sem er að gerast og skipst á myndum, spjallað um ána og veiði almennt ef því er að skipta.

Það eru allir velkomnir, hvort sem þeir eru félagar eða ekki, það eina sem þarf að gera er að sækja um aðgang og við samþykkjum alla nýja meðlimi án tafar.

Grúbban heitir "Stangaveiðifélagið Flúðir og annað áhugafólk um Fnjóská" og má finna hér ef þú ert innskráð(ur) á Facebook;

Stangaveiðifélagið Flúðir og annað áhugafólk um Fnjóská

Einnig má fletta henni upp á Facebook eftir nafni til að finna grúbbuna.

f.h. stjórnar, Ingvar Karl

12 apr. 2015
Aðalfundur Stangaveiðifélagsins Flúða verður haldinn mánudaginn 13. Apríl 2015 í Golfskálanum að Jaðri, og hefst hann kl. 20.00 hafi tilskilinn fjöldi félaga mætt.
Í fundarhléi verður að venju boðið upp á kaffi og meðlæti.

Dagskrá
1. Aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins.
2. Ræktunarátakið.
3. Veiðihús.
4. Önnur mál.

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.