Fréttasafn

25 júl. 2016

Það voru að losna stangir á laxasvæðunum í Fnjóská núna 28. júlí - 1. ágúst og má sjá hvað er laust hér.

Þegar þetta er skrifað hafa verið skráðir 118 laxar í bók og meðalþyngdin góð eða 5,6kg.

Lítið hefur sést af smálaxinum ennþá en algengt er að hann fari að láta sá sig á þessum tíma í einhverju magni enda síðustu dagar júlí og fyrsta vikan í ágúst almennt talið allra besti tíminn.

Myndin er af Olgeiri Haraldssyni með væna hrygnu úr Árbugsárós á svæði 2 um liðna helgi.


29 jún. 2016

Síðustu daga hefur Fnjóská farið hríðlækkandi dag frá degi og því aðeins tímaspursmál hvenær vart yrði við fyrstu laxana á efri svæðunum eftir að stiginn var orðinn fær, sem og að töluvert hefur sést af laxi á göngu á fossasvæðinu fyrir neðan stiga.

Það var svo í morgun að fyrsti laxinn veiddist fyrir ofan stiga og var það 82 cm hrygna sem veiddist í Ferjupolli. Veiðimaðurinn setti í annan lax af svipaðri stærð en missti hann eftir stutta baráttu.

Það er eitthvað laust af veiðileyfum á næstu dögum og eru þau á sanngjörnu verði nú þegar von er á laxi og sjóbleikju á svæðum 2-4.

Myndin er af Ferjupolli og er úr myndasafni.


20 jún. 2016

Eftir morgunvaktina í dag þann 20. júní hafa veiðst 29 laxar í Fnjóská.

Þetta verður að teljast mjög góð byrjun en veitt er með 2 stöngum í Fnjóská þessa dagana á neðsta svæðinu. Meðalþyngdin er einnig mjög góð og stendur nú í 5,6 kg og stærsti fiskurinn 9,6 kg hængur á Malareyri.

Nú síðustu tvær vaktir hafa veiðst 2 smálaxar og allavega 4 sjóbleikjur á bilinu 1,5 - 2,5 kg í bland við 2ja ára fiska. Það er ekki algengt að svona vel veiðist svona snemma sumars og einnig að smálax og sjóbleikja sé byrjuð að láta sjá sig. Vonandi veit þetta á gott fyrir framhaldið en þessi byrjun svipar dálítið til metársins 2010 þar sem 1054 laxar veiddust. Þá voru komnir um 25 laxar á land þann 25. júní en áin einnig opnuð 3 dögum seinna þá en núna í ár.

Áin var orðin fagurblá á litinn í gær sunnudag og vatnsmagn komið niður í 97 m3 en eftir hitabylgjuna í gær fór hún upp aftur í 140 m3 en er nú á góðri niðurleið og stendur í 120 m3 þegar þetta er skrifað.

Það er eitthvað um lausar stangir fram að og í kring um mánaðarmót á svæði 1 og má sjá laus leyfi hér. Eftir það er svæði 1. uppselt fram til seinni hluta ágústmánaðar.

Hérna er svo veiðibókin á laxasvæðum Fnjóskár.

Athugið að mynd er úr myndasafni og endurspeglar ekki vatnsmagnið í ánni núna.


14 jún. 2016

Stjórn Stangaveiðifélags Flúða opnaði Fnjóská seinnipartinn í dag 14. júní.

Veiðimenn urðu varir við töluvert af laxi og náðust 6 laxar á land sem verður að teljast nokkuð gott í Fnjóská um miðjan júní. Einnig var sett í einn til viðbótar sem ekki náðist og fleiri voru að sýna sig án þess þó að taka.

Áin hefur fallið mikið í vatni síðustu 3-4 daga eða úr 250 í tæplega 130 rúmmetra og var aðeins lítillega lituð. Aðstæður voru því með ágætum og mun betri en í opnunum undanfarin ár.

Laxarnir sem veiddust voru í Rauðhyl, Neðsta-viki, Merkjabreiðu, Malareyri og Efra-Lækjarviki. Vart var við fleiri laxa á Malareyri og Merkjabreiðu ásamt því að einn stórlax lá í Neðra-Lækjarviki sem hafði engan áhuga á því sem fyrir hann var lagt.

Á myndinni má sjá Olgeir Haralds glíma við lax á Malareyrinni og hægt að smella á myndina til að sjá hana stærri.


02 jún. 2016

Við létum hanna nýtt logo fyrir Flúðir þar sem hið gamla er ekki aðgengilegt á stafrænu formi í góðum gæðum og erfitt í notkun í nútíma stafrænni tækni. Markmiðið var að fá nýtískulegt en jafnframt einfalt logo sem gæti virkað alls staðar, á skjám í snjallsímum, á vefsíðum, umslögum, bréfsefnum og í prentun á boli og húfur til að mynda. Við leituðum til grafísk hönnuðs sem er sérfræðingur í því að hanna og gera svoleiðis logo og niðurstaðan var þessi eftir nokkrar útfærslur og fínpússanir.


02 jún. 2016

Nú eru komin veiðileyfi í sölu í vefsölunni. Það er sú breyting á að veiðileyfasalan fer fram í gegn um Veiðitorg sem er miðlægt veiðileyfasölukerfi og þar er einnig að finna veiðibækur síðustu ára sem og skráningu í veiðibækur. Á vefsíðunni hjá okkur eru flýtihnappar sem færa notendur beint yfir á okkar sölu- og veiðibókasíður.

Til að kaupa veiðileyfi og skrá veiði þarf að Nýskrá sig á Veiðitorgi og eftir það er hægt að skrá sig inn með netfangi og lykilorði framvegis. Þessu fylgir mikið hagræði þar sem ekki þarf að fylla út upplýsingar nema einu sinni og eftir það þarf ekkert að fylla út við kaup á leyfum nema kortanúmer sem fer fram í gegn um örugga greiðslugátt á Dalpay.

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.