Fréttir

18 jún. 2012

Veiði hafin í Fnjóská

Uppfært 19.6:
Í morgun náðist einn lax í Kolbeinspolli og sett var í annan sem ekki náðist í Skúlaskeiði. Um 10 laxar sáust í Kolbeinspolli og lax sást einnig í stiganum.

Nú um helgina opnuðu Flúðamenn fyrir veiði í Fnjóská ásamt því að gera klárt fyrir veiðisumarið. Meðal þess sem var gert var að möl var mokuð upp úr laxastiganum með stórtækum vinnuvélum og vegur að vestanverðu hreinsaður ásamt því að veiðihúsin voru gerð klár.

Lax sást víða á svæðinu en það var ekki auðvelt að setja í þá og ná þeim. Einn lax náðist í Brúarlagshyl (efst í Kolbeinspolli) og var það 12 punda nýrunninn hrygna sem var sleppt aftur eftir viðureignina. Sett var í 2 laxa til viðbótar, einn í Neðra-Lækjarviki sem sleit sig lausan og annan í dag á Bjarghorni sem náði einnig að losa sig við veiðimanninn.

Laxar sáust í Klapparhyl, Bjarghorni, Neðra-Lækjarviki og Brúarlagshyl og voru þetta allt fallegir 2ja ára laxar.

Fnjóská er frekar vatnslítil núna miðað við árstíma og veldur það því að laxinn rýkur beint í gegnum neðsta svæðið og þaðan upp í á þar sem hann dreifir sér. Að öllum líkindum ættu að veiðast laxar í uppánni í júní en í fyrra var það ekki fyrr en 10. júlí sem það gerðist sökum vatnsmagns.

Almenn veiði er nú hafin og veiðimenn á efri svæðunum eftir hádegi í dag hafa orðið varir við töluvert staðbundinni bleikju og urriða, einn setti til að mynda í 4 bleikjur og landaði einni þeirra, allar um 2ja punda. Ekki hafa menn fundið lax þar efra enn sem komið er enda áin löng og vatnsmikil og því felur hún auðveldlega nokkra tugi laxa.

Mynd: Erlendur Steinar tók þessa mynd af neðsta veiðisvæðinu í Fnjóská núna um helgina.

Til baka