Fréttir

24 jún. 2012

Laxinn að ganga og sumir mættir á svæði 4

Nú er búið að landa a.m.k. 10 löxum í Fnjóská og setja í álíka marga sem hafa sloppið. Vaktirnar á svæði 1 hafa verið að gefa 1-2 laxa hver þegar aðstæður hafa verið góðar, veiðimenn hafa verið að setja í fleiri en töluvert um að þeir sleppi, enda stórlaxar á ferðinni og svæðið vatsnmikið og straumhart.

Á föstudagskvöld sáust svo fyrstu laxarnir "upp í á" og það á efstu stöðum á laxasvæðinu. Einn lax sást í Lygnu (66) og var mikið reynt við hann áður en hann lét sig hverfa. Annar sást í Systrahvammi (59) ofan við brúnna, sá var í stærra lagi og blasti við gestum sem voru á göngu yfir brúna í Vaglaskógi. Eftir að hafa fengið nokkur köst á sig lét hann sig hverfa út í djúpið og sást ekki meir á þeirri vaktinni. Líklega eru skýringarnar á þessu áhugaleysi ört vaxandi vatn á seinni vaktinni enda var hitastig inni í Fnjóskárdal um 20 gráður klukkan 18.

Undirritaður var á svæði 1 í enda vaktar á föstudagskvöld við smávegis lagfæringar á stiganum og á stuttum tíma sáust 3 laxar skella sér inn í Kolbeinspollinn með tilheyrandi stökkvum og látum upp af brotinu - allir vænir fiskar.

Framkvæmdum við laxastigann er nú lokið og sagði okkur einn flúðafélagi sem hefur veitt í ánni í tugi ára að hann hefði aldrei séð stigann jafn fallegan og auðgenginn fyrir fisk.

Ekki hefur ennþá sést til sjóbleikju, en síðustu 2-3 árin hefur hún verið snemma á ferðinni, nýgengnar bleikjur hafa veiðst í opnun og á fyrstu dögum. Við spurðum Erlend Steinar sem hefur verið að merkja og rannsaka hegðun sjóbleikju í Eyjafirði síðustu árin. "Hvað veldur, hvar er sjóbleikjan?"

"Það er gott að hún er seinna á ferðinni, það er þá vonandi að fara í sama far og var áður, bleikjan gengur inn í árnar í Eyjafirði upp úr byrjun júlí og göngur verða jafnari og betri líkt og áður fyrr."

Við vonum að þetta sé rétt hjá Erlendi Steinari, síðasta haust var mikið um haustbleikju neðst í Fnjóská og menn veiddu vel. Allt voru þetta fallegar bleikjur um 1,5 pund. Rúmlega 50 stk voru merktar og sleppt aftur í rannsóknarskyni og verður fróðlegt að sjá hvort þær mæta aftur í ár sem hrygningarfiskar í Fnjóská - eða í aðrar ár í Eyjafirði.

Við hvetjum veiðimenn sem ná að landa stórum bleikjum til þess að gefa þeim líf. Ólíkt laxinum, þá hrygnir bleikjan ár eftir ár og stækkar 5-6cm á ári - stórar bleikjur gefa af sér stærri og fleiri hrogn.

Mynd: Erlendur Steinar glaðbeittur í Fnjóská

-ikþ

Til baka