Nú eru skráðir um 120 laxar og um 200 silungar í veiðibækur Fnjóskár. Eftir góða byrjun þá dalaði veiðin í laxinum og bíða menn núna og vonast eftir því að smálaxinn sýni sig í einhverjum mæli. Víða annars staðar á norðurlandi er ástandið eins, veiðin frekar róleg og lítið um smálax.
Silungsveiðin hefur verið með góðu móti og mikið af fallegri sjóbleikju að ganga í ána og meira en síðustu ár sem er mjög jákvætt.
Við minnum menn á klakkisturnar og að setja stórlaxa, sérstaklega hrygnur, í klakkistu og láta vita. Það er mjög áríðandi að við fáum góða klakfiska núna fyrir framtíðina.
Kisturnar eru staðsettar á eftirfarandi stöðum:
Kolbeinspolli
Árbugsárós að austan
Sandi að vestan
Eyrarbreiðu að austan
Ofan Eyrarbreiðu að vestan
Flúðum að austan
Systrahvammi að vestan
Við minnum svo menn enn einu sinni á að skrá afla í veiðibækur strax að lokinni veiðiferð en líkt og oft áður þá vitum við um nokkra seldar stangir sem eiga eftir að skrá veiði.
Veiðibókin er orðin sýnileg á vefnum og verður uppfærð 1-2 í viku það sem eftir er að sumri.