Fréttir

14 ágú. 2012

Laxveiði, silungur og stórurriði

Laxveiði í Fnjóská hefur ekki staðið undir væntingum nú í sumar en það sama má segja um flestar aðrar laxveiðiár sem við höfum frétt af. Smálaxinn hefur ekki látið sjá sig í neinu magni og gerir það veiðina rólega - en það er alltaf kropp og nokkur skot inn á milli hér og þar.

Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru biðlum við hjá Flúðum til veiðimanna í Fnjóská að allur 2ja ára fiskur fari í klakkistu eða sé sleppt í ána aftur sé ekki mögulegt að koma honum í kistu. Einnig að fallegar smálaxahrygnur fái líf nú á haustdögum, annað hvort í kistu eða í ánni.

Við fórum yfir veiðibækurnar í dag og þá voru skráðir 196 laxar en vitað að eftir er að skrá einhverja frá síðustu 2 hollum sem voru að veiða. Af laxasvæðum eru komnir rúmlega 240 silungar í bók og rúmlega 100 af silungasvæðinu við Illugastaði.

Stórurriði veiddist í Vatnsleysuhyl sunnudaginn 7. ágúst og vigtaði hann nákvæmlega 3,92 kg og var 72cm á lengd. Sá var stútfullur af laxaseiðum. Með urriðann, þá gilda önnur sjónarmið því við viljum ekki hleypa honum meira inn í vatnakerfið en þegar er. Hann er í örum vexti í ánni og hefur mikið veiðst af honum í sumar og því æskilegt að öllum urriða sem veiðist sé lógað áður en hann nær þeirri stærð að fara að hafa mikil áhrif á seiðabúskap lax og bleikju.

Mynd: 8 punda urriði sem Örn Svarfdal veiddi í Vatnsleysuhyl 7. ágúst

-ikþ

Til baka