Við notum vafrakökur til að greina upplýsingar um notkun vefsíðunnar til að bæta efni og birta markaðsefni. Nánar um vafrakökur LEYFA VAFRAKÖKUR

Fnjóská

Hér á eftir er grein Eiríks Sveinssonar læknis á Akureyri, en hún birtist fyrst á prenti árið 1991. Á stöku stað hefur með leyfi höfundar verið gerð lítilsháttar breyting á textanum vegna breyttra staðhátta nú. Einnig hafa verið settar inn millifyrirsagnir.

" . . . Hvað veiðigleðina sjálfa áhrærir, þá hefur það nú farið fyrir mér að flugustöngin hefur ummótað gljúpa skapgerð mína á þá lund, að það eru einstaklingar meðal fiskanna, sem ég hef gaman af og markmiðið hefur breyst, sem er : Hámarksgleði yfir lágmarksveiði . " ( Stefán Jónsson, veiðimaður (nú látinn)).

Þetta heimspekilega viðhorf Stefáns gæti vel þurft að nota um veiði í Fnjóská.

Hnjóskadalur er herleg sveit,
Hnjóskadals vil ég byggja reit,
í Hnjóskadal hrísið sprettur.

Þannig kvað Látra Björg um Fnjóskadal.

Í Landnámu stendur : " Þórir snepill, sem fyrst nam Kaldakinn, nam síðar Hnjóskadal allan til Ódeilu og bjó að Lundi. Hann blótaði lundinn. "

Staðhættir.
Stöndum við á Ódeilu, innan Almannakambs og horfum suður til Fnjóskadals blasir við okkur landnám Þóris snepils, og þó fyrst og fremst Út-Fnjóskadalur. Héðan falla vötn til Árbugsár, en hún rennur suður til Fnjóskár og fellur í hana við árbuginn við austurenda Dalsmynnis, rétt hjá bænum Þverá. Hér beygir Fnjóská til vesturs um Dalsmynni til Eyjafjarðar. Ekki mun hún hafa runnið þannig frá upphafi, heldur um Flateyjardalsheiði alla leið til Skjálfanda.
Fnjóskadalur opnast út í Höfðahverfi við Eyjafjörð og liggur í boga til austurs og nefnist þar Dalsmynni. Síðan sveigir hann í suður meðfram Vaðlaheiði norðanverðri. Innarlega klofnar hann svo í þrjá afdali, sem allir eru í eyði. Fnjóská fylgir vestasta dalnum Bleiksmýrardal. Fnjóskadalur er um 40 km að lengd frá Dalsmynni og inn að dalamótum Bleiksmýrardals, Hjaltadals og Timburvalladals.
Á ísöld hafa skriðjöklar frá meginjökli Skjálfandasvæðisins ruðst vestur til Fnjóskadals og rekist á Fnjóskadalsskriðjökulinn og síðan þokast með honum út um Flateyjardalsheiði alla leið til Skjálfanda. Fnjóskáin hefur þá runnið sem kolmórautt jökulvatn undir jöklinum sömu leið. Þá var Dalsmynni ekki til í núverandi mynd.
Eftir þetta tók líklega við hlýindaskeið, en aftur kólnaði og jöklar mynduðust á ný og gengu fram á báða vegu við Ódeilu. Þeir óku á undan sér feiknum af malarruðningi og fylltu farveg Fnjóskár og stífluðu að mestu rennsli hennar út til Flateyjardals og myndaðist þá mikið stöðuvatn í Fnjóskadal. Sér enn glöggt til fjörumarka um allar hlíðar dalsins, þar sem ekki er skógarkjarr.
Ekki er vitað með vissu, hvar útrennsli vatnsins hefur verið, en gæti hafa verið austur um Ljósavatnsskarð til Bárðardals. Um síðir hefur það þó fengið útrás vestur yfir þröskuldinn vestast í Dalsmynni til Eyjafjarðar. Hefur það fallið bratt niður og orðið mikið vatnsfall, sem fljótt hefur grafið djúpt gljúfur. Þar hefur Fnjóská síðan runnið og flutt með sér botnfall vatnsins mikla og með því fyllt upp láglendið í Höfðahverfi sunnanverðu og Fnjóskárgrunn í Eyjafirði og jafnframt tengt Þengilhöfða meginlandinu.
Þrátt fyrir að skógar hafi eyðst, er Fnjóskadalur enn gróðursæl sveit og þar hefur ekki bara Vaglaskógur staðið af sér þann ágang, sem eyddi mest öllu skóglendi Íslands. Innar í dalnum, þar sem skógarlundir Þóris snepils voru vöxtulegastir, fer að vísu harla lítið fyrir hávöxnum björkum Lundsskógar, en innar er Þórðarstaðaskógur, sem á 19. öld var einn vænsti skógur landsins. Birkiskógarnir, sem fnjóskarnir komu úr, voru víða uppurnir og blásnir melar blöstu við, þar sem bjarkir bærðust áður í vindi, en skógrækt er nú veruleg og fallegt skógarkjarr og skógarlundir fegra Fnjóskadalinn mjög.
Fnjóská liðast með nokkuð mismunandi straumþunga í bugðum og krókum eftir endilöngum dalnum. Sums staðar er hún aðþrengd af miklum melhólum eða hjöllum, en rennur þess á milli um grundir eða lyngmóa. Mýrlendi er í útdalnum hjá Veisu og Draflastöðum. Sandbleyta á botni er hvergi umtalsverð, en víðast er malarbotn og oft stórgrýttur. Upp frá ánni eru smáhækkandi melhjallar upp undir fjöllin, sem eru allbrött að austanverðu og þó nokkuð há, grýtt og skriðurunnin hið efra, giljótt og með hjarnsköflum allt árið, en hið neðra vaxin lyngi og fjalldrapa og sums staðar skógarkjarri. Snögglendara er vestan árinnar og hlíðar dalsins eru ávalar og bunguvaxnar nema yst. Verulegur birkiskógur er andspænis Árbugsánni.

Áin.
Fnjóská á upptök sín langt inni á Sprengisandi í Bleiksmýradrögum, skammt austan Nýjabæjarafréttar og kyssir þar upptök Þjórsár. Vatnasvæði hennar er þannig mikið, enda er Fnjóská ein af vatnsmestu bergvatnsám landsins, en jafnframt ein af þeim köldustu. Lengd árinnar er 117 km frá upptökum og er hún lengsta dragá landsins. Meðalársvatnsrennsli hennar (MQ) ofan Árbugsár er 36 rúmm./sek.
Fyrst rennur áin norður Bleiksmýrardal. Skammt norðan Reykja, innsta bæjar Fnjóskadals í byggð og sunnan Sellands, tekur Fnjóská á móti Bakkaá, sem myndast við samruna Timburvalladalsár og Hjaltadalsár. Þingmannalækur og síðar Kambsá falla í Fnjóská rétt hjá Hrísgerði og loks Árbugsá við Þverá eins og áður var sagt.
Í gamla daga var Fnjóská oft á tíðum slæmur farartálmi milli byggðana austan og vestan ár. Nú er hún all vel brúuð.
Á vetrum fer Fnjóská strax saman í fyrstu vetrarfrostum á lygnu neðan brúar neðst í Dalsmynni, en iðulega helst svo vikum skiptir samfelld straumvök á ánni ofar í Dalsmynni. Þegar hrönnin, sem er ein stærsta á Norðurlandi, nær um 9 m hæð, setur hún Laufásfossa í kaf og íshellumyndunin á því sæmilega greiða leið lengra uppeftir.
Á vorin í leysingum, koma stundum hlaup í ána. Þau eru þó mjög misstór. Mesta mælda flóð hennar var 12. júní 1979, þegar vatnsrennslið mældist 468 rúmm./sek., sem er rúmlega tífalt meðalrennsli. Fnjóská er gjarnan mjög vatnsmikil í byrjun laxveiðitímans, sem hefst 20. júní ár hvert. Þeir, sem fyrstir veiða, lenda oft í miklu vatni og/eða móryglu, þar sem fjara árinnar er stundum vel yfir meter hærri en síðar á sumrinu. Hún helst oft vatnsmikil fram eftir sumrinu.

Laxinn.
Neðan Brúalags í Dalsmynni hefur alltaf verið lax í Fnjóská og var áður veiddur í kistur frá Laufási. Ein kistan hefur líklega verið staðsett í veiðistað vestan ár, sem heitir Laufáspollur og er varla stærri en "tröllamatskeið". Um 1913 mun hafa verið sprengt í Laufásfossum, sem var aðalhindrun fiskigengdar upp ána og talið að einhver fiskur hafi komist upp, þegar áin var minnst. Um 1934-35 tók breskur lávarður, Fortescue að nafni, ána á leigu til 20 ára. Var þá látið nokkuð af seiðum í hana, en hitt var mest um vert, að hann lét gera laxastiga upp fossana. Ekki tókst þó fullkomlega að gera veginn greiðfæran og hefur verið bætt verulega um síðan með nýjum laxastiga ofan Brúarlags við austurlandið. Karlinn veiddi mest sjálfur í ánni en lét vinum og kunningjum einnig eftir tíma. Hann var síðan kallaður utan vegna seinni heimsstyrjaldarinnar og Kaupfélag Eyfirðinga gætti hagsmuna hans næstu árin. Fortescue hafði ána á leigu fram um 1960, en á þessum árum ríkti bann við að lax, sem veiddist í ánni væri drepinn, honum skyldi sleppt. Eftir það tóku bændur sjálfir að sér útleiguna og settu laxaseiði í ána. Má geta þess um Fnjóskdælska, að þeir eru margir áhugamenn um fiskirækt og sumir hinir ágætustu veiðimenn.

Árið 1969 var Fnjóská leigð stangaveiðifélaginu Flúðum á Akureyri. Hefur félagið hana ennþá á leigu, en núverandi formaður félagsins, alveg frá 1970, er höfðinginn Sigurður Ringsted, fyrrverandi útibússtjóri Iðnaðarbankans á Akureyri. Mikið magn af seiðum var sett í ána í upphafi, en mun minna og jafnvel ekkert seinni árin, þar til nú allra síðast. Félagið á nú ágætt veiðihús við ána, í landi Böðvarsness, en fyrra veiðihúsið, sem var í birkihvammi austan við Húsbreiðuna, skammt sunnan stórbýlisins Skarðs, eyðilagðist í snjóflóði 13. febrúar árið 1974.
Mörgum kunnáttumönnum þykir Fnjóskáin vera á mörkum þess að geta verið laxveiðiá, aðallega vegna kulda vatnsins. Hún þykir aftur á móti kjörin sjóreyðará (salmo alpinus) og er sem slík ein af þeim gjöfulustu á landinu. Aðal laxasvæðin eru fyrir neðan Vaglaskóg og reyndar er einnig hægt að hitta á lax þar fyrir ofan, en bleikjan er um alla á. Fyrir 1970 kom það fyrir, að bleikjur stærri en 10 pund veiddust í Fnjóská. Ég hef heyrt þá sögu, að einu sinni hafi veiðst 16 p bleikja á gljúfursvæðinu, en hvort rétt er, veit ég ekki. Seinni árin hefur bæði þyngd bleikjunnar og fjöldi minnkað verulega og stórbleikja er nú mjög sjaldgæf. Milli áranna 1970 og 1980 fengust oft býsn af haustbleikju og veit ég, að Sigurður Ringsted fékk einu sinni 125 stykki á einum degi.
Ekki er hægt að segja annað en Fnjóskáin sé skemmtileg veiðiá. Hún er vatnsmikil, straumþung á köflum, hefur margbreytilega veiðistaði, er erfið, stundum stríðin, óvænt, köld, misdjúp og skapgóð. Oft á tíðum er erfitt að takast á við laxinn, en það gefur ánni stóran plús, því veiðiathöfnin er því mikilfenglegri, sem glíman við laxinn er erfiðari og lengri og geymist lengur í huganum sem því nemur. Umhverfi árinnar er afskaplega fallegt víðast hvar. Umferð meðfram henni er fremur lítil og því oft hægt að lifa sig inn í þögnina, við undirspil árniðsins, þar sem harpa landsins hljómar hvað fegurst í Íslenskri náttúru. Sýsluvegurinn liggur austan við ána og er víðast hvar frekar stutt frá bakkanum. Vestan ár nær vegurinn nyrst að Draflastöðum og Hjarðarholti, en þaðan er hægt að keyra áfram niður með ánni, fyrst eftir skógræktarvegi í fögru umhverfi, og síðan eftir vegaslóða allt niður á 1. svæði og þar inn á veginn milli Grenivíkur og Akureyrar. Vegaslóði þessi er fyrst og fremst fyrir jeppa og aðrar fjórhjóladrifsbíla, en hann má þó einnig oftast aka með gát á öðrum farartækjum.

Undirritaður hefur háð marga hildi á bökkum Fnjóskár, og á hún því margar veiðiperlur á talnabandi laxveiðiminninganna.
Veitt er á 6 stengur á laxasvæðum árinnar, og skiptast þær þanning að 2 stengur eru neðan þrengsla á svokölluðu 1. eða neðsta svæði, 2 stengur á 2. svæði og 2 stengur á 3. svæði. Veiða má á öll veiðarfæri, enda þolir áin það vel vegna vatnsmagnsins. Í byrjun veiðitímans, er veiðin nær undantekningarlaust á 1. svæðinu, enda er áin þá oft mjög vatnsmikil og gjarnan lituð. Fiskurinn virðist ekki komast óhindrað upp fyrir Laufásfossana, um stigann, fyrr en áin hefur minnkað niður í visst vatnsmagn. Kann þar bæði að valda ólgan í strengnum í Brúarlagi og of mikið vatn í stiganum, nema hvortveggja sé. Laxinn kemur því missnemma í uppána og getur það dregist fram undir 20. júlí að veiðin byrji á efri svæðunum.
Oft gerast mikil æfintýri á neðsta svæðinu, enda er laxastofn Fnjóskár sprettharður, þolinn og sterkur, einkum snemmsumars. Þurfa menn oft að taka á honum stóra sínum, sérstaklega þegar mikið vatn er í ánni. Laxinn hikar oft ekki við að renna sér niður ána með veiðimanninn á harðahlaupum í togi og þrátt fyrir mikla fífldirfsku sumra, sleppur konungurinn oftar en ekki, enda er það ekki auðveldast að hlaupa meðfram Fnjóskánni í gljúfrunum. Flugan er lítið notuð þarna í byrjun veiðitímans.
• • • Þetta minnir mig á snarpa en fremur stutta viðureign, sem ég átti við einn af ljúflingum Fnjóskár. Ég var að byrja að veiða snemma morguns 2. júlí 1973. Það var logn, alskýjað og 15 gráðu lofthiti. Klukkan var 07:15, ég var staddur við Kolbeinspoll og áin stútfull af vatni. Ég var með Black doktor flugu, tvíkrækta no 6 á girninu. Mér gekk illa að kasta, baksveiflan setti fluguna í bakkann aftanvið, enda varð ég að standa mjög nærri honum. Síðasta kastið datt varla 5 metra og ég festi í botni, á þeim stað, sem síðsumars er þurr. En eins hendi væri veifað þaut botninn af stað upp ána og ég fraus, en ekki lengi, því hann kom til baka eins og tundurskeyti og skaust niður úr veiðistaðnum beint í ólguna og hvítfyssið. Ég tók á rás á eftir, mun léttari á mér en í dag, en féll á andlitið í vatnið áður en ég kæmist fyrir klapparnefið niður í Efra- Lækjarvikið. Þar stansaði laxinn. Ég blés og reyndi að hella úr bússunum. En Adam var ekki lengi í Paradís. Hann rauk af stað aftur niður í Malareyrina og ég á eftir og hnaut á klapparnefinu milli veiðistaðanna og flaug aftur flatur á andlitið í vatnið í lygnunni við Malareyrina. Á meðan ég kom undir mig fótunum, strunsaði laxinn yfir ána í Bjarghornið, þaðan upp í Laufáspollinn og stefndi aftur á ný í áttina til mín og niður í Neðra- Lækjarvik, en ég hafði varla við þungur og bússufullur. Þar synti laxinn á fullu upp í sandfjöruna, sem endar í 15 gráðu horni og ég henti mér ofan á hann í vatnsskorpunni, náði fiskinum, gullfallegri 10 p hrygnu, eftir 5 mínútna hörku viðureign, en fluguöngullinn hafði krækst í augað. Við kollegarnir höfðum sigrað með smá svindli. Þetta er harðasta og skemmsta viðureign, sem ég hef lent í við lax hingað til. • • •

Veiðistaðir.
Nú mun ég fylgja ánni frá nýju Fnjóskárbrúnni og niður í Höfðahverfið og geta helstu veiðistaða eins og ég met þá. Númer staðanna eru í sviga aftan við nöfn þeirra, en veiðistaðamerkjum með þessum númerum má finna á bökkum árinnar.

Flúðir (52).
Þetta er efsti veiðistaðurinn á laxasvæði Stangaveiðifélagsins Flúða. Nafnið gefur nokkuð til kynna útlit hans. Áin kemur í veiðistaðinn að austan og steytir þar á klettum, sem neyða hana til að beygja í norður aftur og nær hún þar straumþungum flúðum efst. Þá rennur hún milli klappa með álum á milli, uns hún finnur fyrir malarbotni og hægir því á sér og endar í lygnri breiðu. Klappirnar ná upp undir allháan grasbakka að vestan, en flatur grasbakki er að austan, þar sem áin er mun grynnri. Um allan veiðistaðinn er dreift misstórum steinum. Þetta er afskaplega fallegur veiðistaður, en ekki sérlega gjöfull og veiðist laxinn alls staðar. Þarna er kjörið að kasta flugunni, en varla nær maður nema út í miðja á. Veiða má af báðum bökkum en mér finnst betra að vera austan við.

Hrísgerðisbreiða (50).
Hún er lygn, langur, breiður og þannig stór veiðistaður. Aðaldýpið er að vestanverðu, en þar rennur áin við tíu metra háan, nær fjörulausan bakka vaxinn kjarri og grasi. Grjóhnullungar eru hér og hvar í ánni, mest ofantil. Austurbakkinn er malarfjara. Mjög erfitt er að kasta flugu þarna, nema með sveiflukasti. Þröngt er á bakkanum og því nokkur vandi að þreyta og ná laxinum. Ég veiði alltaf vestan ár.

Þvergarðsbreiða (49).
Straumþungur, allbreiður, meðalstór, fallegur og erfiður veiðistaður, og minnir um margt á Vaðhyl í Selá. Áll árinnar er nær austurlandinu og efst er djúp klettarenna undir yfirborðinu. Nokkrir allstórir steinar eru við austurlandið og sá stærsti neðst, áður en áin kemur í breiðuna. Hún er venjulega grunn og vel væð, enda gamalt vað, Þvergarðsvað, suður og niður undan túninu á Víðivöllum, sunnan hólma í miðri á og ferjustaður var þar litlu sunnar. Þar lágu fjölfarnar reiðgötur að Hálsi og einnig lengra austur til Ljósavatnsskarðs. Stakur steinn er úti í miðri á, sem ekki nær yfirborðinu í miklu vatni. Áin er mjög grunn við vesturlandið, eftir að niður kemur af allbröttum mel með grasbakka, en í minna vatni kemur malarrif þar upp úr síðsumars, sem gerir löndun auðveldari. Efst við þessa eyju eru allmargir steinar, sem venjulega standa vel upp úr, en frekar grunnur áll er næst landinu. Grasbakki er við austurlandið. Margir kjósa að vaða ána á breiðunni og veiða frá austurbakkanum, en undirritaður veður út í miðja á frá vesturlandinu og kastar þaðan úr straumröstinni. Þarna hef ég átt margar snarpar glímur við sterka laxa og þessi staður er uppáhalds veiðistaðurinn minn í uppánni.
• • • 30. júlí 1975 setti ég í lax á flugu, Sweep no 8, tvíkrækju, þarna á Þvergarðabreiðunni frá vesturlandinu. Hann tók skammt ofan stóra steinsins á breiðunni. Ég var úti í miðri á í þungum straumi og áin óvenjulega vatnsmikil, svo rifið við vesturlandið var á kafi. Laxinn var afskaplega frískur, lét öllum illum látum og var talsvert neðan við mig, þegar hann tók. Ég var með einhendu, en tókst aldrei nógu vel að bakka úr straumnum vegna látanna. Hann fór þó aldrei nema niður á breiðuna sem betur fer. Vel hálfur klukkutími leið og vorum við félagarnir, ég og laxinn, nú komnir ofarlega í veiðistaðinn, ég á malarrifinu en hann skammt úti á grynnra vatni. Ég var orðinn mjög þreyttur í stangarhendinni og ætlaði að reyna að sigla laxinum milli steinanna og á lygnara vatn við bakkann. Hvað eftir annað var hann kominn hálfa leið, en náði sér alltaf út aftur. Nú var liðin klukkustund. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að taka fast á honum, enda hræddur um að litla flugan gæti losnað hvenær sem væri, en þetta var fyrsti laxinn, sem ég setti í á Þvergarðabreiðunni. Viðureigninni lauk með sigri mínum, er ég sporðtók þessa spegilfögru 12 p hrygnu klukkan 11 þarna milli steinanna í júlísólinni. Það var logn meðan á þessu stóð, heiðskírt og 17 stiga lofthiti. • • •
Mér hefur dvalist of lengi á Þvergarðsbreiðunni en nú förum við að næsta veiðistað.

Litlabreiða (47).
Hún er lunkinn veiðistaður og gefur mér æfinlega hjartslátt þegar ég nálgast hann, spölur er þangað af veginum. Lætur hún fremur lítið yfir sér, er auðveldur veiðistaður, krefst ekki langra kasta og því upplagður flugustaður. Hann er þó gjarnan eins og tímasprengja og þar gerast oft eftirminnileg æfintýri. Margir sleppa veiðistaðnum í yfirferðinni. Áin kemur þarna strítt og þjarmar að austurbakkanum, allháum mel, sem hún nagar stöðugt úr og því er engin fjara þeim megin. Dýpi staðarins og laxalega er því nær austurlandinu niður á breiðuna. Vesturbakkinn er malarfjara og lágur grasbakki upp af henni. Veiðistaðurinn er frekar lítill, straumþungur efst í strengnum og rennur áin þar milli steina en endar í lygnri breiðu þar sem áin breikkar ört. Ég veiði þarna frá vesturbakkanum og veð vel útí miðja á. Mér finnst veiðistaðurinn gullfallegur.

Eyrarbreiða (46).
Vatnsmikill og langur veiðistaður, sem veiða má af báðum bökkum og er auðveldur hvoru megin sem er. Laxinn getur verið nær alls staðar, en líklega oftar en ekki á jafnrennandi breiðunni. Þessi staður er frekar seinlegur yfirferðar en gefur oft góða veiði.

Bakkahylur (45).
Langur, breiður og djúpur veiðistaður með jöfnum straumi, en laxinn liggur oftar í neðri hluta hans. Austan ár er bakkinn malarfjara, en vestan ár er hár malarkambur, gróinn nokkuð með grasgöngubraut meðfram ánni. Stórir steinar, sem liggja misdjúpt eru neðarlega og djúpir álar á milli. Dálítið erfitt er að kasta flugu af vesturbakkanum, þar sem flestir veiða svo sem undirritaður. Þetta er fallegur og gjöfull veiðistaður. (Ath. veiðistaðurinn er nú mun minni en áður, vegna nýlegra breytinga sem gerðar voru til að hindra landbrot)

Vatnsleysuhylur (44).
Þarna rennur áin í austur meðfram bröttum, grónum norðurbakka en flötum malarbakka að sunnan. Hylurinn er mjög djúpur ofantil en endar í grunnri breiðu. Þarna er best að veiða sunnan til. (Ath. veiðistaðurinn er nú nánast horfinn vegna nýlegra breytinga, sem gerðar voru til að hindra landbrot)

Stekkjarhylur (42).
Mjög skemmtilegur og auðveldur fluguveiðistaður, stríður og myndar þrönga röst efst, þar sem áin rennir sér milli smákletta og all stórra steina, en þenur sig út neðar, þegar fram kemur á breiðuna. Grasbakkar eru báðum megin ár og má veiða frá þeim báðum, en vaða verður allvel út og er mun betra að veiða frá vesturbakkanum. Lax er um allan miðjan veiðistaðinn.

Símastrengur (40).

Þetta er langur, breiður veiðistaður, grunnur ofantil en djúpur neðantil, einkum við vesturlandið og neðst er stór áberandi steinn í miðjum hylnum, sem skýlir oft stórum löxum. Bakkalaust er austan ár, flatt en vestan ár, þar sem ég tel að eigi að standa, er lágur, smáhallandi malarkambur.

Kvíslardjúp (39).
Af mörgum er þessi sómaveiðistaður talinn besti veiðistaður uppárinnar, enda hefur hann gefið marga laxa á öll veiðarfæri, sem eru leyfð í Fnjóská. Áin er af meðalbreidd þarna, nokkur straumur í efri hlutanum en lygnara neðst. Áll er í miðri á og þar liggur laxinn, en á breiðunni er hann víða og alveg niður á brotið. Vestan ár er malarfjara en metershár rofabakki að austan, sem áin tægir sífellt og veltir til sín við landið. Flestir kjósa að standa austan ár, en mér eru báðir bakkar tamir. Þarna hef ég fengið flesta laxa í uppánni. (ath. seinni árin hefur veiðistaðurinn breyst töluvert vegna náttúrulegra breytinga á farvegi)

Végeirsstaðaklif (38).
Stór veiðistaður, oft laxagefandi með rólegum straumi. Vesturbakkinn er malareyri, en austurbakkinn nokkuð brattur malarkambur, Klifið, með smástalli neðst. Veiða má frá báðum löndum, en mér finnst betra að fara frá vesturbakkanum út í miðja á og kasta flugunni beint niður en þar tekur laxinn, sínu betur neðan til. (ath. seinni árin hefur veiðistaðurinn breyst töluvert vegna náttúrulegra breytinga á farvegi)

Böðvarsneshylur (35).
Talinn einn af bestu veiðistöðunum í efri hluta árinnar. Þarna rennur áin aftur í vestur, enda er norðurbakkinn hár grjót- og móhellukambur, illvinnanlegur af ánni. Veiðistaðurinn er mjög langur og breiður, nokkuð straumharður efst, en verður svo lygn neðst, að áin sést varla renna áður en hún brotnar niður við næstu bugðu árinnar. Ég hef séð og fengið lax alls staðar í veiðistaðnum. Suðurbakkinn er flöt malarfjara, sem auðvelt er að standa á við veiðina. Beint í austur frá þessum veiðistað á grónum malarkambi undir kjarrbrekku stendur Flúðasel, veiðihús stangveiðifélagsins Flúða. (ath. seinni árin hefur veiðistaðurinn breyst töluvert vegna náttúrulegra breytinga á farvegi)

Ferjupollur (33).
Áin rennur þarna aftur talsvert í austur. Þetta er meðalstór veiðistaður, breiður, nokkuð staumþungur og er veiddur frá báðum bökkum enda grasbakkar beggja vegna, en þó er nauðsynlegt að vaða út í ána ofantil þegar veitt er. Laxinn liggur þarna vítt og breitt ekki síst nær norðurbakkanum ofarlega.

Böðvarsnesklif (32) og Grjótgarðshylur (31).
Þessir staðir liggja saman eins og stundaglas. Klifið er frekar stuttur og grunnur veiðistaður og þrengir sér niður í hinn af verulegum þunga og skellur á 10 m löngum grjótgarði við austurlandið úr stórum björgum, sem sett eru niður af guða eða manna höndum. Klifið suður af grjótgarðinum er grasgefið við ána, en malarfjara er vestan ár. Veiða má af báðum bökkum. Ég nota fluguna lítið þarna nema neðst á breiðunni.

Hólmahylur (30).
Fallegur, hæfilega stór veiðistaður með þokkalegum straumi efst og lygnri breiðu neðst og dýpi í miðri ánni. Austurbakkinn er malareyri, en vesturbakkinn brattur melhóll efst og grasbakki neðantil með grýttri fjöru. Vestantil þarf að gæta nokkuð að bakkastinu. Þarna má veiða beggja vegna og nota ég mér það og hef fengið flesta fiskana um efri hluta staðarins.

Vaðnesbreiða (29) og Árbugsárós (28).
Þetta kalla ég sama veiðistaðinn og er hann þá verulega stór með góðum laxastraumi, dýpi í miðju og tærri breiðu neðst, þar sem Árbugsáin rennur í Fnjóská með fersku og köldu vatni. Þessir tveir veiðistaðir eru einn af þrem gjöfulustu stöðunum í uppánni. Austan árinnar er þægilegur grasbakki, en þar sem áin er þarna þokkalega breið, verður vaða útí til að ná nógu langt, en botninn er mjög háll þarna. Vestan ár er mjór grasbakki og kjarriklæddur, allbrattur malarhóll þar ofan við í pirrandi nálægð í bakkastinu þegar flugunni er beitt. Botn árinnar er líka mjög háll þarna megin. Þrátt fyrir þetta fékk ég tvo skemmtilega flugulaxa í beit þarna af vesturbakkanum á Sweep no 6 tvíkrækju klukkan 19:30 og 20:00, 21. ágúst 1973 í logni og heiðskíru veðri og 12 gráðu lofthita. Eftir að hafa rennt sér fram úr brotinu neðst í ósnum, hættir Fnjóská að renna í norður og tekur nú norðvestlæga stefnu.

Biskupsbreiða (26).
Var erfiður veiðistaður að nálgast en auðveldari eftir að vegaslóði kom vestan árinnar í gegn um skóginn. Veiðistaðurinn er stór en ekki mjög djúpur og betra er að veiða hann vestan ár, enda áin tvískipt þarna og ekki alltaf væð að austan. Grasbakki er þarna meðfram vesturlandinu.

Húsbreiða (21).
Efst á vesturbakkanum er klöpp út í ána, þar neðar sandfjara og enn neðar grasbakki. Þarna þarf að fara varlega að ánni. Laxinn liggur oft í smálygnu framan sandbakkans. Annars er áin mjög straumþung þarna og vatnsmikil með klettum og klöppum undir yfirborðinu, og manni finnst hún miklu stærri og vatnsmeiri þarna en annars staðar. Mér finnst erfitt, en mjög ánægjuríkt að þreyta lax á Húsbreiðunni. Ég veiði einnig austan ár, en þá þarf að vaða bússudýpt út til að ná álnum.

Engjabakki (19).
Áin er breið og straumþung þarna. Best er að veiða frá vesturbakkanum. Einnig má nota austurbakkann, en það er mun verra vegna hás grasbakka, sem áin rennur meðfram þeim megin. Efst að vestanverðu er grasgeiri og lygna við landið og erfitt að ná til laxsins. Neðst eru klappir næstum út í miðja á og þar er mjög aðdjúpt og nauðsynlegt að fara varlega. Laxinn getur legið alveg við klappanefin og auk þess er fljúgandi hált þarna. Verulega þolinmæði þarf á stundum, þegar laxinn hleypur á færið þarna, sérstaklega flugulax, þar sem tipla þarf á hálum klöppunum með dýpið á milli, enda hef ég oft tekið mér bað á þessum stað.

Það má eiginlega segja, að Engjabakki sé neðsti veiðistaðurinn á efri svæðunum og nú kemur að fyrsta svæðinu. Það byrjar þar sem áin steypir sér niður eftir nokkrum smáfossum, sem voru ekki laxgengir áður. Þarna hefur áin grafið sér gljúfur í gegnum harða klöpp og fellur þar mjög þröngt með miklu hvítfyssi. Hér heitir Brúarlag.
Neðsta svæðið nær frá árósum Fnjóskár og upp að Grefilslæk, en veiðin er að mestu í áðurnefndu gljúfri, frá brúnni vestan Pálsgerðis og upp að Brúarlaginu, utan nokkurra veiðistaða neðan brúar. Aðalveiðisvæðið er um 500 metrar og segja má, að það sé einn samfelldur veiðistaður, einkum meðan mest er í ánni fyrri part sumarsins. Brúarlagsbreiðan er efst og skiptist í þrjá veiðistaði, Brúarlagshyl og Helluna að vestan og Kolbeinspoll að austan. Vestan ár ofan brúar eru einnig, Bjarghorn og Skúlaskeið en austan ár, Efra-Lækjarvik og Malareyrin.

Hellan (6). Þar rennur áin á berghellu, við og framan hamarsins, eftir að hún kemur úr þrengslunum. Laxinn (og bleikjan) liggja oft í torfum þarna á hellunni, sem auðvelt er að sjá ofan af berginu. Til að geta kastað, þarf að fara niður náttúrulegar tröppur á syllu, sem liggur við þrengslin nokkru ofan vatnsyfirborðsins. Þarna er gaman að kasta flugu, en flestir nota líklega maðkinn. Laxinn hefur mikla möguleika að sleppa þarna, enda veiðimaðurinn í eins konar spennitreyju.

Bjarghorn (4). Þetta er fyrst og fremst vorveiðistaður, sem gefur helst lax snemma á veiðitímanum meðan laxinn er í göngu og áin vatnsmikil. Staðið er undir klettunum, þegar hægt er að vaða meðfram berginu. Þungur straumur er á staðnum og laxinn liggur djúpt. Þarna gerast oft skemmtileg æfintýri, þegar veiddur er vorfiskur úr þessum skemmtilega laxastofni.

Skúlaskeið (3).
Einkennandi fyrrsumarsveiðistaður heitinn eftir Skúla Svalbarðseyrargreifa, en lax fæst þar þó lengur fram á sumar en á Bjarghorninu. Staðurinn er ekki stór en stríður, með lygnum vogi miðsvæðis. Fram af klettasnös liggur laxinn djúpt og meðfram klettarana undir vatnsyfirborðinu og alveg niður á brotið, þar sem áin steypir sér niður í Klapparhyl (2).

Kolbeinspollur (8).
Fallegasti og besti veiðistaður árinnar að mínu mati og minn uppáhalds flugustaður, enda hvergi fengið fleiri flugulaxa. Veiðistaðurinn er þó bestur fyrri part veiðitímans, eins og aðrir á fyrsta svæðinu, en laxinn veiðist þó í honum alla sumarmánuðina og oft má fá lax þarna fram í september. Kolbeinspollur er lygn á yfirborðinu, með þungum miðstraumi og lygnari botnstraumi alveg eins og laxinn vill hafa það. Aftan veiðistaðarins er berghamar og truflar það allflestan veiðimanninn í bakkastinu, meðan ekki er hægt að vaða út í ána. Botn árinnar er allur settur misdjúpum klettarákum við landið og neðantil, en í miðri ánni er möl, þegar kemur upp í Brúarlagshylinn. Þarna liggur laxinn, oft eins og á talnabandi. Flúðahávaði liggur niður úr Kolbeinspolli og þá leiðina fara stundum sterkustu laxarnir og er þá ekki að sökum að spyrja.

Efra Lækjarvik (9).
Veiðistaður, sem varla er hægt að kalla svo. Flatarmál hans er vart meira en 15 fermetrar. Hann er vel djúpur eins og trekt með víða opið inn undir flúðafossinn úr Kolbeinspolli. Hann minnir á hver, sem ætlar fara að gjósa, enda gjósa oft laxar þar á færið á vorin, en laxinn hvílir sig þarna áður en hann reynir að ganga Kolbeinspollshávaðana.

Malareyrin (10).
Mjög gjöfull, geysidjúpur klettapottur á móti Bjarghorninu, og endist til veiða allt sumarið. Hallandi klappir liggja að veiðistaðnum, en ofantil og niður að honum miðjum er malareyri, sem staðurinn heitir eftir. Nokkur vandi er að veiða þarna, enda skrítið að kasta í svona iðupotta og flugan er lítið reynd.

Rauðhylur (15).
Sá er neðan brúar og er þar, sem áin siglir aftur út úr gljúfrinu. Veiðistaðurinn er lygn efst en straumurinn vex síðan niður úr allstríðri breiðu, þar sem laxinn liggur oftast. Klappir eru við austurlandið, neðan við malarbakka en út af þeim fást oft laxar. Rauðhylur er snemmsumarstaður. Sumir veiða vestan ár.

Borgargerðisbreiða (17).
Fallegur snemmsumarstaður laxsins en síðsumarstaður bleikjunnar. Hann er stór og djúpur með góðum straumi. Vestan ár eru malareyrar en grasbakkar að austan. Veiða má af báðum bökkum. (Ath. seinni árin hefur veiðistaðurinn breyst töluvert af nátturulegum ástæðum og vegna brúargerðar)

Ég hef nú fylgt Fnjóskánni ofan frá Flúðum og niður að Borgargerðisbreiðunni, þar sem áin kemur út úr Dalsmynninu. Ég hef viljandi sleppt að nefna marga veiðistaði, en getið þeirra, sem ég tel þá helstu.

Veiðin.
Ætla ég nú að minnast nokkuð á veiðina úr Fnjóská síðastliðin rúm 20 ár, eða þann tíma sem stangveiðifélagið Flúðir hefur haft hana á leigu. Einnig ætla ég að birta nokkur línurit, sem skýra að nokkru veiðina síðast liðin 15 ár eða frá 1975 - 1990.
Heildarveiði úr Fnjóská frá 1969 til 1990 var 5425 laxar og veiddust því 247 laxar árlega að meðaltali þessi ár. Hængar voru 2553 og hrygnur 2882. Veiði í júní var 571 lax, í júlí 2480 laxar, í ágúst 1993 laxar og í september 381 lax. Fluguveiðin á sama tíma var 700 laxar. Á spón veiddust 2276 laxar og 2449 laxar veiddust á maðk. Meðalþungi laxa úr Fjóská 1969 - 1990 var 9,14 pund.
Á árunum frá 1969 til 1982 veiddust 4511 laxar, svo árlegt meðaltal var 322 laxar þau ár. 1983 - 1990 komu 914 laxar á land, að meðaltali 114 laxar árlega.
Hrun varð á laxveiði úr Fnjóská árið 1983, er áin datt niður fyrir 100 laxa það ár, nánara 98. Einnig var árið 1987 lélegt með 93 laxa. Hin árin frá 1983 hafa verið rétt ofan hundraðsins, skárst 1986, en þá komu á land 144 laxar. Ennþá hefur engin skýring fengist á þessu hruni, en gæti verið sú, að ræktunarmálum árinnar hafi ekki verið sinnt sem skyldi. Á, sem er svo köld sem Fnjóská, getur trúlega ekki ráðið við uppeldi laxaseiðanna og þarf því að fá aðstoð við það. Á hinn bóginn má svo spyrja sig, hvort sú ákvörðun hafi verið rétt árið 1934-35, að setja laxaseiði í ána. Ef til vill væri betra að hætta þessu laxabasli og reyna að gera ána aftur að góðri bleikjuá.

Draumur veiðimannsins.
Ennþá lifum við veiðimenn, sem rennum í Fnjóská í voninni um meiri laxagengd og að aftur komi árin, þar sem sjá mátti stökkvandi lax um alla á. Komi sú tíð, að Fnjóská nái 500 laxa árlegri veiði, verður aftur gaman að standa á bökkum hennar og kasta með einhendunni áhnýttri, Sweep no 8 eða Black doktor no 6 og bíða eftir þessarri einu og sönnu töku hins sterka, fríska og þolna Fnjóskárlax. Megi ég upplifa slíkt.
•••••
Eiríkur Sveinsson.