Fnjóská
Fnjóská - Lax- og silungsveiði í frábæru umhverfi
Fnjóská
Áin, sem er 117 km að lengd, á upptök sín í Bleiksmýrardrögum og er ein vatnsmesta bergvatnsá landsins. Lax og sjóbleikja eru uppistaðan í veiðinni, en einnig veiðast í ánni urriði og staðbundin bleikja. Veiði hefst 18. júní og stendur til 20. september og eru göngur hvað mestar um miðbik og seinni hluta júlímánaðar. Veiðistaðir í Fnjóská eru flestir stórir og víðáttumiklir með jafnt rennsli en jafnframt mikinn straum, sem gerir ána að frábærri fluguveiðiá. Stangaveiðifélagið Flúðir á Akureyri hefur haft Fnjóská á leigu óslitið síðan 1969.
Á svæðum 1-4 er leyfilegt að veiða á flugu og spón til hádegis 1. ágúst.
Frá hádegi 1. ágúst er aðeins leyft að veiða á flugu með flugustöng á svæðum 1–4 og gildir það fyrirkomulag til lokunar árinnar.
Öllum laxi yfir 65 cm skal sleppt eða hann settur í klakkistu.
Til hádegis 11. ágúst er heimilt á svæðum 1-4 að hirða einn lax 65 cm eða minni á hverjum hálfum degi.
Eftir það má eingöngu veiða á flugu og sleppa laxi eða setja í klakkistur.
Athugið að hvorki er heimilt að flytja þennan kvóta á milli svæða né á milli stanga.
Eftir hádegi 11. ágúst og út veiðitímann skal öllum laxi sleppt eða hann settur í klakkistu.
Öllum bleikjum og sjóbirtingi skal sleppt aftur og gildir það um allt veiðitímabilið.
Ekki eru takmörk á staðbundnum urriða og mega veiðimenn gjarnan hirða þá í soðið.
Ekki er leyfilegt að sleppa hnúðlaxi eða laxi úr sjókvíaeldi aftur í ána.
Veiðitími:
Veiðitími morgunvaktar er frá kl. 7 til 13 og veiðitími kvöldvaktar er frá kl. 16 til 22 til og með 10. ágúst, en eftir það frá kl. 15 til 21.
Veiðihús eru staðsett við Flúðasel. Veiðimenn sjá um sig sjálfir með mat, rúmföt, handklæði og þess háttar. Veiðihúsin eru eingöngu fyrir veiðimenn á svæðum 1 – 4 og heimilt er að nýta tvö svefnpláss fyrir hverja stöng.
Athugið! Ekki má fara inn í sjálf veiðihúsin fyrr en 30 mínútum fyrir veiðitíma og gestir þurfa að vera búnir að rýma og skila af sér veiðihúsi 30 mínútum eftir að veiðitíma lýkur. Tæma skal heita pottinn eftir notkun. Hundar eru velkomnir á svæðið en ekki er leyfilegt að hafa þá inni í veiðihúsunum. Heimilt er að láta þá sofa í laxageymslu og vöðlugeymslu.
Ekið er austur þjóðveg 1 frá Akureyri þar til komið er yfir brúna neðan Vaglaskógar. Stuttu eftir að ekið er yfir brúna er beygt til vinstri niður Fnjóskadal og eru veiðihúsin um það bil 5 km frá gatnamótum á hægri hönd með skilti við afleggjara merkt Flúðum.
Veiðimenn eru beðnir um að loka alltaf hliðum á eftir sér og aka ekki um tún og ótroðnar slóðir nema með leyfi landeigenda. Einnig eru veiðimenn beðnir um að sýna landeigendum og öðrum veiðimönnum tillitssemi, ganga vel um landið og skilja ekki eftir rusl við ána.
Kaupendur veiðileyfa skuldbinda sig til að fylgja veiði- og umgengnisreglum, og skrá alla veiði í rafræna veiðibók á heimasíðu okkar. Veiðileyfi fást ekki endurgreidd.