47 - Litlabreiða
Hún er lunkinn veiðistaður og gefur mér æfinlega hjartslátt þegar ég nálgast hann, spölur er þangað af veginum. Lætur hún fremur lítið yfir sér, er auðveldur veiðistaður, krefst ekki langra kasta og því upplagður flugustaður. Hann er þó gjarnan eins og tímasprengja og þar gerast oft eftirminnileg æfintýri. Margir sleppa veiðistaðnum í yfirferðinni. Áin kemur þarna strítt og þjarmar að austurbakkanum, allháum mel, sem hún nagar stöðugt úr og því er engin fjara þeim megin. Dýpi staðarins og laxalega er því nær austurlandinu niður á breiðuna. Vesturbakkinn er malarfjara og lágur grasbakki upp af henni. Veiðistaðurinn er frekar lítill, straumþungur efst í strengnum og rennur áin þar milli steina en endar í lygnri breiðu þar sem áin breikkar ört. Ég veiði þarna frá vesturbakkanum og veð vel útí miðja á. Mér finnst veiðistaðurinn gullfallegur. (-ES-)
Hægt er að veiða staðinn frá báðum bökkum en þó kjósa flestir að veiða hann að austanverðu, þar er laxinn nær landi. Ef staðurinn er veiddur að vestanverðu þarf að vaða töluvert út í ána. Gott er að byrja fremur ofarlega og kasta ofan við ólgur sem myndast af stórum steinum úti í ánni. Rétt ofan við og neðan við þessa steina eru legustaðir laxanna þegar líða tekur á sumar en þegar fiskur er að ganga af krafti má fá fiska alla leið niður á brot. (-IKÞ-)