52 - Flúðir
Nafn veiðistaðarins gefur nokkuð til kynna útlit hans. Áin kemur í veiðistaðinn að austan og steytir þar á klettum, sem neyða hana til að beygja í norður aftur og nær hún þar straumþungum flúðum efst. Þá rennur hún milli klappa með álum á milli, uns hún finnur fyrir malarbotni og hægir því á sér og endar í lygnri breiðu. Klappirnar ná upp undir allháan grasbakka að vestan, en flatur grasbakki er að austan, þar sem áin er mun grynnri. Um allan veiðistaðinn er dreift misstórum steinum. Þetta er afskaplega fallegur veiðistaður, en ekki sérlega gjöfull og veiðist laxinn alls staðar. Þarna er kjörið að kasta flugunni, en varla nær maður nema út í miðja á. Veiða má af báðum bökkum en mér finnst betra að vera austan við. (-ES-)